Gerir athugasemdir við kynjahlutfall frummælenda á málþingi

Á fundi samfélags- og mannréttindaráðs Akureyrarbæjar í vikunni var tekið fyrir erindi frá Andreu Sigrúnu Hjálmsdóttur bæjarfulltrúa Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs þar sem gerðar eru athugasemdir við kynjahlutfall frummælenda á málþinginu Þú skilur mig ekki sem haldið var 29. september sl.

Andrea óskaði eftir að eftirfarandi athugasemd hennar yrði færð til bókar: "Um leið og ég vil fagna þeirri áherlsu sem samfélags- og mannréttindaráð hefur lagt á góð og heilbrigð samskipti foreldra og barna hér á Akureyri vil ég lýsa yfir miklum vonbrigðum yfir því að jafnréttisnefnd Akureyrar, sem ráðið óneitanlega er, komi að skipulagningu og stuðningi við málþing (29. september 2011) um samskipti fjölskyldunnar þar sem allir frummælendurnir, sem ræða um uppeldi barna og unglinga á faglegum forsendum, eru karlar. Mér finnst skjóta skökku við að í samfélagi þar sem allar rannsóknir sýna að ábyrgð á barnauppeldi er fremur á höndum kvenna en karla að bæjarfélagið, sem státar af góðri stöðu jafnréttismála, sendi þau skilaboð til mæðra, feðra og unglinga í bænum að einungis karlar séu sérfræðingar í samskiptum innan fjölskyldna. Varaformaður ráðsins lagði á það áherslu á bæjarstjórnarfundi þann 20. september sl. að bæjarfulltrúar ættu ávallt að vera til fyrirmyndar þegar kemur að jafnréttismálum, við hljótum þá jafnframt að geta gert þá kröfu að jafnréttisnefnd bæjarins sé ávallt í fararbroddi hvað jafnréttismál varðar og sendi ekki þau skilaboð til íbúa bæjarins að karlar séu einu sérfræðingarnir í bæjarfélaginu um samskipti fjölskyldna og uppeldi barna og unglinga. Eins og óneitanlega er verið að gera þarna."

Í bókun samfélags- og mannréttindaráð kemur m.a. fram að ráðið telur mikilvægt að nefndir og ráð bæjarfélagsins séu til fyrirmyndar í jafnréttismálum. "Aðstandendur málþingsins Þú skilur mig ekki voru Meðferðarheimilið Laugalandi og samfélags- og mannréttindaráð. Lagt var upp með að þeir sérfræðingar sem hefðu framsögu tengdust Laugalandi. Þannig háttar til að meirihluti þeirra sérfræðinga sem þar starfa eru karlar. Þannig háttar einnig til að í fíkniefnadeild lögreglunnar á Akureyri starfa karlar og þótti brýnt að taka stöðuna á Akureyri vegna eftirfylgni við málþingið Bara gras? sem haldið var í vor. Í heildina komu 5 karlar og 3 konur fram á málþinginu, tvær þeirra stýrðu því. Á þennan hátt tengdist málþingið tónleikunum Í minningu Sissu sem skipulagt var af þeim stúlkum sem eru í meðferð á Laugalandi og haldnir voru daginn eftir en samfélags- og mannréttindaráð var ekki skipulagsaðili tónleikanna heldur veitti ráðið málefninu stuðning," segir ennfremur í bókun ráðsins.

Nýjast