Gengið verði vel frá samningum um biðlaunarétt við bæjarstjóra

Jón Erlendsson og Kristín Sigfúsdóttir bæjarfulltrúar VG lögðu fram bókun á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í gær, þar sem þeim eindregnu tilmælum er beint til næsta meirihluta í bæjarstjórn að hann gangi vel frá samningum um biðlaunarétt við bæjarstjóra. Þar skuli tekið fram að bæjarstjóri eigi ekki rétt á biðlaunum kjósi hann að fara í aðra vinnu á kjörtímabilinu.  

"Þetta á sérstaklega við þegar bæjarstjóri situr áfram sem bæjarfulltrúi og jafnvel sem forseti bæjarstjórnar. Almennar biðlaunareglur gilda ef um vanheilsu og brottvikningu er að ræða eða fái bæjarstóri ekki endurráðningu að kosningum loknum," segir ennfremur í bókuninni. Málið var til umræðu eftir að Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri og formaður stjórnsýslunefndar hafði gert grein fyrir stöðu stjórnsýslumála á vegum stjórnsýslunefndar Akureyrarbæjar.

Nýjast