Geðrækt - hvað og hvernig?

Jenný Gunnarsdóttir
Jenný Gunnarsdóttir

,,Heilbrigð sál í hraustum líkama”.  Þetta er setning sem við höfum flest heyrt áður, og er víða notuð. Mörg þekkjum við líka ýmsar leiðir til að stuðla að hraustum líkama; atriði sem við koma hreyfingu, mataræði og heilbrigðisþjónustu. Hrausti líkaminn er áhugamál margra, hann er umræðuefni á kaffistofum og í fjölskylduboðum. Við vitum að hraustur líkami er ekki sjálfgefinn, og að það er ævilöng vinna að styrkja hann og hlúa að honum.

En hvað með þessa heilbrigðu sál? Er hún einnig rædd í kaffipásum eða barnaafmælum? Vissulega hefur orðið breyting á síðari árum, þar sem umræðan um geðheilsu hefur aukist. En því miður einkennis sú umræða gjarnan af umfjöllun um geðsjúkdóma eða -raskanir. Viðhorfin virðast enn vera þannig að annað hvort sé einstaklingur heill á geði, eða ekki, og ef ekki sé viðkomandi þá með geðsjúkdóm. En við vitum að enginn líkami er fullkomlega heilbrigður og verður það alltaf - af hverju reiknum við með að sálin, eða geðið, virki þannig?

 Líkamsrækt er orð sem hefur verið notað lengi, en Árnastofnun skilgreinir það sem ,,ástundun almennra líkamsæfinga til að efla og viðhalda hreysti”.  Við vitum að líkamsrækt er verkefni sem þarf að sinna út alla ævina, það er ekki nóg að fara einu sinni í golf eða á eitt lyftingarnámskeið og kalla það svo gott. Geðrækt er nýrra orð. Samkvæmt Árnastofnun er það  ,,allt það sem byggir upp og hlúir að geðheilsu”.  Ég er mjög hrifin af orðinu geðrækt, þar sem það kallast á við orðið líkamsrækt, og bendir til þess að geðrækt sé líka lífstíðarverkefni, eitthvað sem þarf að leggja stund á og temja sér.

En hvað er geðrækt, hvað felur hún í sér? Það sem byggir upp og hlúir að geðheilsu getur verið misjafnt á milli einstaklinga, en þó eru ákveðin atriði sem kalla má grunnstoðir góðrar geðheilsu og þar með mikilvægir hlutar geðræktar. Það eru:

-        Svefn: Að fá góðan 7-9 klst svefn að staðaldri er eitt það besta sem hægt er að gera fyrir andlega jafnt sem líkamlega heilsu.

-        Hreyfing: Að hreyfa líkamann á einhvern hátt, reglulega, hefur mikil og jákvæð áhrif á geðheilsu. Sé fólk að koma sér af stað í hreyfingu getur verið gagnlegt að setja markið nógu lágt í upphafi, svo það sé yfirstíganlegt. Jafnvel bara 10 mínútur á dag til að byrja með.

-        Félagslíf: Manneskjan er hópdýr, og að mynda og viðhalda félagslegum tengslum er okkur nauðsynlegt. Einmanaleiki hefur til dæmis svipuð áhrif á lífslíkur og reykingar. Að umgangast vini og fjölskyldu, og nýta sér símtöl og aðra tækni til að rækta sambönd, hefur því jákvæð áhrif á heilsuna.

-        Næring: Mikilvægt er að drekka nóg vatn og gefa líkamanum góða næringu. Ef við erum svöng eða þyrst verður allt annað gjarnan mun erfiðara.

-        Sjálfsþekking: Við erum öll einstök, og það sama hentar ekki öllum. Það er því engin skotheld uppskrift af heilsurækt sem hentar öllum. Því er mikilvægt að kynnast sjálfu sér, hvað það er sem nærir okkur hvert og eitt og byggir upp. Að þekkja sín persónulegu merki um streitu og vanlíðan, og að setja sér og öðrum skýr mörk.

 Auk þessara grunnstoða eru mýmargar leiðir til geðræktar sem hægt er að tileinka sér og leggja stund á, rétt eins og til eru fjölmargar leiðir til líkamsræktar.

Nokkur dæmi:

-        Núvitund: í sinni einföldustu mynd felst núvitund í að æfa sig í að veita líðandi stund athygli. Fjölmargar rannsóknir staðfesta jákvæð áhrif núvitundar á geðheilbrigði. Hægt er að fara á námskeið eða nýta sér heimasíður og smáforrit.

-        Útivist: að vera úti í náttúrunni og undir berum himni hefur mjög róandi og nærandi áhrif, og bara það að hafa útsýni yfir einhverskonar gróður hefur jákvæð áhrif á heilsuna.

-        Að skapa eitthvað: hvort sem það er að prjóna, elda mat, mála, skrifa eða smíða - þá er sköpun mjög góð geðrækt.

-        Að sinna áhugamálum: Að taka sér tíma fyrir sjálft sig til að sinna áhugamálum sínum er mikilvægt mótvægi við allt það praktíska og mikilvæga sem við þurfum að gera í hversdeginum.

-        Anda djúpt: Að taka nokkra djúpa andardrætti daglega getur haft jákvæð áhrif á streitu, og ennþá betra er að læra nokkrar einfaldar öndunaræfingar sem geta hjálpað þegar við upplifum stress eða viljum ná betri slökun.

-        Að gefa af sér: Hópdýrinu homo sapiens líður vel af því að hjálpa öðrum og gefa af sér. Hvort sem það er að aðstoða vini eða ættingja þegar þau þurfa á að halda, miðla af eigin þekkingu og reynslu, eða að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi, þá stuðlar það að góðri líðan.

-        Að iðka þakklæti: Sýnt hefur verið fram á að það að hugsa um eða skrifa daglega niður nokkur atriði sem við erum þakklát fyrir, hefur jákvæð áhrif á líðan.

-        Takmarka neyslu á fréttaefni og neikvæðri afþreyingu: Að vera sífellt útsett fyrir því slæma sem gerist í heiminum getur skekkt mynd okkar af raunveruleikanum og valdið óþarfa vanlíðan. Gott er að setja sér einhver mörk þegar kemur að fréttaefni.

Ofantalið eru bara nokkrar uppástungur, og gott getur verið fyrir hvert og eitt að spyrja sig: Hvað nærir mig? Hvað lætur mér líða vel? Hægt er að skrifa niður þessi geðræktar úrræði og eiga tilbúin næst þegar þörf er á, eða ennþá betra: að koma þeim inn í rútínu hversdagsins.

Stundum er ákveðinn vandi eða áföll sem við þurfum að vinna úr, og er þá gott að gera það með stuðningi fagaðila, svo sem sálfræðings. Einnig eru til fjölbreytt námskeið fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í geðrækt, vill tileinka sér nýjar aðferðir, eða vinna í ákveðnu vandamáli. Hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni vinna margir ólíkir fagmenn sem saman hafa breiða sérþekkingu. Þar eru einnig reglulega námskeið þar sem fólk getur fræðst um og unnið með sjálfstyrkingu, streitustjórnun, hugræna atferlismeðferð og ACT meðferðarformið.

Við viljum endilega taka þátt í því að breiða út þekkingu og færni til geðræktar, og við erum til staðar til að gera það með þér!

Höfundur er kennari með menntun í sálfræði, kynjafræði og stjórnun, og starfar við fræðslu hjá Heilsu- og sálfræðiþjónustunni.

 


Athugasemdir

Nýjast