Garpar Íslandsmeistarar í krullu

Íslandsmótinu í krullu 2011 lauk í gærkvöld í Skautahöll Akureyrar þegar Garpar unnu Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn og náðu titlinum úr höndum Mammúta sem hafa haft fastatak á bikarnum undanfarin þrjú ár. Sjö lið tóku þátt í mótinu, öll úr röðum Krulludeildar Skautafélags Akureyrar. Garpar eru vel að sigrinum komnir, unnu ellefu leiki og töpuðu aðeins einum.

Þeir lentu reyndar í kröppum dansi í lokaumferðinni, voru komnir 5-0 á sama tíma og helstu keppinautarnir og Íslandsmeistarar síðastliðinna þriggja ára, Mammútar, spiluðu jafnan og spennandi leik gegn Riddurum, en ef Garpar hefðu tapað sínum leik og Mammútar unnið sinn hefði þurft aukaleik milli þessara liða um titilinn.

Garpar náðu hins vegar ævintýralegum viðsnúningi í leik sínum gegn Víkingum, skoruðu þrjú stig í næstsíðustu umferðinni og svo fjögur í þeirri síðustu og tryggðu sér þannig sigur í leiknum og Íslandsmeistaratitilinn.

 Mammútar hljóta silfurverðlaunin, einum vinningi á eftir Görpum, og Fálkar fá bronsverðlaun.Sigurlið á Íslandsmóti ávinnur sér rétt til að leika fyrir Íslands hönd í C-keppni Evrópumótsins í krullu. Sú keppni fer að þessu sinni fram í Kaupmannahöfn í september á þessu ári.

Í liði Garpa eru þeir Hallgrímur Valsson fyrirliði, Árni Grétar Árnason, Gunnar H. Jóhannesson, Kristján Bjarnason og Ólafur Hreinsson.

Nýjast