Gamla fréttin að þessu sinni er í lengri kantinum. Um er að ræða viðtal sem birtist í 8 blaðsíðna blaðauka um Húsavík og nágrenni í Tímanum þriðjudaginn 14. júlí 1981 sem tekið var við Bjarna Aðalgeirsson þáverandi bæjarstjóra á Húsavík.
Farið var yfir nauðsyn þess að fjölga ferðamönnum í bænum, margfeldisáhrif aukins ferðamannastraums, þörf á betri og tíðari flugsamgöngum og komið inná magnaðar hugmyndir um heilsubæinn Húsavík:
„Æ, strákar mínir, ég hef ekki nokkurn tíma í þess háttar blaður. Ég er í vinnunni", sagði Bjarni Aðalgeirsson, bæjarstjóri á Húsavík, þegar blaðamanni og leiðsögumanni hans hafði tekist að lauma sér inn á skrifstofu hans og fóru fram á viðtal. ,,Getið þið ekki bara hringt í mig eftir helgina?"
Bjarni er snaggaralegur maður og þótti greinilega lítið til erindis blaðamannsins koma, við hlið þeirra bæjarmála, sem biðu á skrifborði hans. Aðalfund hótelsins átti að halda að kvöldi sama dags og töluverð undirbúningsvinna eftir, auk annarrar afgreiðslu, sem hvílir á herðum bæjarstjóra. En sagt er að hver maður eigi sér veikan punkt, sem aðeins þurfi að þrýsta ofurlítið á, til þess að undan verði látið. Og viti menn, þegar blaðamaðurinn dró myndavél úr pússi sínu og mundaði hana, með þeim orðum að ljósmynd yrði hann þó að fá, því slíkt gæti reynst annmörkum háð um síma, varð þessum dygga þjóni almúgans við eins og meykerlingu sem sér beran karlmann. Hann spratt óttasleginn á fætur, þreif jakkann sinn, og sagði að það væri líklega minnst tímaeyðslan að fara i stutta ökuferð um bæinn með gestina. Svona tól væru í það minnsta of ógnvekjandi til þess að vera i lokuðu herbergi með.
Okuferðin lá fyrst á bensínstöð Líkast til svo hún hefði þó eitthvert notagildi. Þar afgreiddi Bjarni sig sjálfur og fundaði í leiðinni með þeim borgurum Húsavíkur sem leið áttu framhjá og töldu sig eiga erindi við hann. Var svo ekið af stað.
„Það er auðvitað margt, sem við viljum ná fram með auknu streymi ferðamanna hingað", sagði Bjarni, þegar bíllinn var kominn á þægilegt skrið og hann búinn að velta fyrstu spurningu blaðamannsins fyrir sér. „Þó er hótelið okkar þar algerlega númer eitt, því við verðum að ná upp nýtingunni á því, ef ekki á illa að fara. Bærinn er stærsti hluthafinn í hótelinu og við getum ekki haldið áfram að greiða með því stórar fjárhæðir á hverju ári, líkt og verið hefur til þessa.
Nýting á gistirými í hótelinu er að vísu sæmilega góð að sumrinu til, en að vetrinum gengur hún svo niður, að meðaltalsnýting yfir árið verður ekki nema um þrjátíu prósent. Það gerir ekki nema rétt að borga daglegan rekstur, þannig að fjármagnskostnaður og allur annar kostnaður verður að takast annars staðar frá.
Raunar er það ekki mikil fjölgun ferðamanna, sem við þurfum til að ná endum saman, því það munar mikið um hvert prósentið í aukningu. Sérstaklega er okkur auðvitað umhugað um að fjölga komum hingað á þeim tímum sem hótelið nánast stendur autt, en nýting að sumrinu til er ekki full nema stöku sinnum, þannig að við höfum líka svigrúm þar.
Það er því ekki einvörðungu hótelið, sem við erum að hugsa til. Því er ekki að neita, að ef okkur tekst að vinna bæinn okkar upp sem vinsælan ferðamannastað, þá rís hér upp ýmisskonar þjónusta, sem bæjarbúar sjálfir fá notið góðs af, þegar fram líða stundir.
Í framtíðinni geta það orðið matsölustaðir, verslanir og ýmislegt sem ekki getur borið sig á viðskiptum við bæjarfélög af þessari stærð einvörðungu. En það sem við erum að hugsa um í dag eru fyrst og fremst samgöngurnar. Aukinn straumur ferðamanna myndi til dæmis skapa grundvöll til þess að Flugleiðir gætu haldið uppi tíðari og öruggari flugsamgöngum hingað, en nú er gert. Að vísu á svo að heita, að samgöngur yfir virka daga vikunnar séu daglegar, en ég vil benda á, að þegar flogið er snemma á fimmtudagsmorgni og svo aftur seint á föstudagskvöldi, líða nær tveir sólarhringar á milli ferða. Það eru ekki í raun daglegar samgöngur.
Loks verðum við svo að muna það, að aukinn ferðamannastraumur myndi hafa í för með sér ákveðna aukningu i atvinnu og þá fyrst og fremst aukna fjölbreytni, skapa nýja möguleika.
Þá erum við ekki endilega að hugsa um atvinnutækifæri sem einvörðungu tengjast ferðamannaiðnaði, heldur möguleika, sem hann gæti rennt stoðum undir, en væru alveg jafnt bundnir staðnum sjálfum og íbúum hans.
Svo eru ákveðnir möguleikar, sem felast í þeim atvinnugreinum sem fyrir eru, og þar er ég að hugsa um sjávarútveginn fyrst og fremst, sem gætu gert þá nokkuð fjölbreyttari. Það er því nokkur hugur í okkur, að vel takist til með þessa samvinnu við Fugleiðir núna. Og við erum reiðubúnir til þess að starfa með fleiri aðilum, þegar fram líða stundir, ef vel gengur. Það er allt of mikið gert af því hér á landi, að hver hokri í sínu horni, í stað þess að starfa saman að settum mörkum."
Þegar hér var komið sögu í viðtalinu, hafði Bjarni ekið um helstu götur bæjarins og þrisvar niður að höfninni. Hann hafði bent á hús og staði og var greinilega hættur að hugsa um tímaeyðsluna, þannig að óhætt taldist að bera fram aðrar spurningar. Blm: En, hvað hafið þið Húsvíkingar að bjóða ferðamönnum? Eftir stutta, hneykslunarfulla þögn, sem greinilega þýddi að svarið væri einfaldlega „Húsavík", hóf Bjarni máls að nýju og líktist þá meira barnaskólakennara að kljást við erfiðan og tornæman nemanda - en bæjarstjóra.
„Til að byrja með liggur Húsavík ákaflega vel við sem miðstöð, með flesta vinsæla ferðamannastaði norð-austanlands innan seilingar. Héðan er um og innan við klukkustundar akstur til flestra þessara staða og í öllum tilvikum styttri leið en frá öðrum þéttbýliskjörnum. Þetta er ekki sagt til þess að klekkja á einum eða öðrum, eða til þess að ná spóni úr aski neins annars. Hins vegar er þetta staðreynd hvað varðar ferðamannastaði hér á svæðinu, að þeir eru margir hverjir ákaflega nálægt Húsavik.
Við teljum okkur því geta boðið ferðamönnum upp á mjög þægilega aðstöðu, bæði þeim sem vilja dveljast hér á hótelinu og fara í styttri ferðir út frá staðnum, svo og þeim sem vilja nota bæinn sem upphafspunkt ferðar, en taka frekar bílaleigubifreið og ferðast sjálfstætt um svæðið.
Í þessum tilgangi er nú komið á samvinnu við þá aðila, sem fara með ferðamannamál á þessum vinsælu blettum, því til þess að þetta fari fram á réttan máta verður að koma upp nokkurs konar heildar-skipulagi.
Þess utan teljum við okkur geta boðið ýmislegt hér á staðnum og verið er að vinna að því að koma upp fleiru til að halda að ferðamönnum.
Enn vil ég fyrst telja hótelið okkar, sem við teljum okkur fullsæmd af. Síðan bjóðum við hér upp á góða sundlaug, íþróttavelli, safnahús, sem er um margt merkilegt, gamlar og fallegar byggingar, golfvöll, sem þykir skemmtilegur, bilaleigu, hestaleigu og ótal margt fleira.
Ég hygg það sé ótal margt, sem við og margir aðrir staðir á landinu getum boðið ferðamönnum, sem okkur hefur einfaldlega aldrei dottið í hug að þeim þætti varið í. Ég undirstrika - margir aðrir staðir - því við erum ekki að ýta Húsavík fram sem einstæðum stað að því leyti til. Á því sviði eru margir þættir að veltast fyrir okkur, sumt af því aðeins óljósar hugmyndir, en annað betur mótað.
Ef við metum aðeins þá aðstöðu, sem þegar er fyrir hendi hjá okkur, getum við sett upp einskonar dags-áætlun fyrir ferðamann, sem hér vill dveljast. Hann hefur góða aðstöðu í góðu hóteli, þar sem vel er hægt að gera við hann í mat og drykk og bjóða flest það sem boðið er á dýrustu hótelum erlendis. Hann getur varið deginum á golfvellinum, eða farið í sjóstangaveiði, farið í sund, grúskað í söfnunum okkar, farið í gönguferðir, ökuferðir, útreiðartúra og ótal margt annað. Deginum getur hann lokið uppi á Húsavíkurfjalli, við að njóta miðnætursólarinnar. Það eru ekki margir staðir sem geta boðið upp á fleira."
Blm: En hvað með framtíðina? Hvaða hugmyndir eruð þið með um frekari uppbyggingu fyrir ferðamannaiðnaðinn?
Bjarni: „Eins og er hugsum við fyrst og fremst um það hvernig megi nýta það sem fyrir hendi er. Hvað við höfum í dag að bjóða. Hins vegar höfum við verið að velta fyrir okkur ýmsum hugmyndum, sem gætu orðið að raunveruleika síðar meir.
Til dæmis hefur vaknað sú hugmynd hvort við gætum ekki farið út í samstarf við önnur sveitarfélög hér í grenndinni, í uppbyggingu skíðasvæðis I fjöllunum hér fyrir ofan, þar sem við ættum snjóinn meira vísan en hann er hérna í Húsavíkurfjalli. Síðan væru þá einhverjar skipulagðar ferðir upp á það skíðasvæði.
Óneitanlega myndi slíkt skíðasvæði auðvelda okkur að auka nýtingu hótelsins og þeirrar þjónustu sem við getum boðið, á þeim tíma sem mest þörf er aukningar. Ég vil þd skýrt taka fram, að þetta eru aðeins óljósar hugmyndir, enn sem komið er.
Aðrar hugmyndir eru betur þróaðar og má þar nefna sem dæmi áætlun, sem við munum hrinda i framkvæmd nú með haustinu, um að efna til einskonar heilsuvikna hér á Húsavik. Ætlunin er að hingað komi fólk, dvelji á hótelinu í eina viku, stundi sundlaug og útiveru og verði á sérstökum matseðli, sem settur verður upp í samvinnu við lækna. Ef fólk vill getur það gert þessa heilsubótardvöl að megrunarkúr líka.
Ef góð reynsla verður af þessu nú í haust, er ekkert því til fyrirstöðu að slíkar ferðir hingað geti staðið reglulega yfir þann tíma ársins, sem daufast er á staðnum."
Þegar hér var komið sögu, var Bjarni aftur farinn að minnast skylduverkanna, sem biðu hans. Leiðin lá þvi aftur niður á bæjarskrifstofur, þar sem pappírar hótelsins lágu og kölluðu. Fyrir utan skrifstofurnar mundaði blaðamaðurinn enn myndavélarræksnið og tókst að smella af einni mynd, þrátt fyrir fullyrðingu Bjarna að vart gæti verið þörf annarrar myndar: „Tókstu ekki eina áðan á bensínstöðinni? Varla þarftu margar." Svo vinkaði hann pípustertinum og kvaddi með orðunum: „Þið getið svo hringt á mánudaginn, strákar mínir, ef það er eitthvað fleira sem ég get sagt ykkur."