Gæði sem skipta máli – Tökum flugið

Helgi Héðinsson
Helgi Héðinsson

Síðustu ár hafa orðið miklar framfarir þegar kemur að millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Við þekkjum lífsgæðin sem því fylgja, enda er ferðlagið til Keflavíkur oft kostnaðarsamasti og tímafrekasti leggur ferðalagsins þegar haldið er utan. Beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll skiptir atvinnulífið einnig verulegu máli enda ein megin forsenda fyrir auknum komum ferðamanna, ekki síst utan háannatíma þegar ferðalög eru að jafnaði styttri. Stærsti einstaki áfanginn á þessari leið er tilkoma Easy Jet, sem flogið hefur beint milli Akureyrar og London frá því síðastliðið haust. Ekkert kemur til af sjálfu sér og fjölmargt hefur þurft að koma saman svo að Akureyri og Egilsstaðir séu raunhæfir valkostir þegar kemur að millilandaflugi.

Heimafólk dregur vagninn

Um árabil hefur heimafólk unnið þrotlaust að því að efla Akureyrarflugvöll, sem þjónar ekki aðeins höfuðstað Norðurlands, heldur víðfeðmu nærsvæði Akureyrar. Má þar nefna frumkvöðla í fluggeiranum, bæjarfulltrúa, áhugafólk um samgöngur og aðra sem lagt hafa hönd á plóg. Markaðsstofa Norðurlands hefur með ýmsum hætti unnið að og sett þrýsting á þróun vallarins og markaðssetningu á honum. Sama má segja um Austurbrú og íbúa Austurlands, þó þróun flugs um Egilsstaðaflugvöll sé skemur á veg komin. Þessi vinna skiptir miklu máli og skilar árangri.

Flugþróunarsjóður

Ein varðan á langri leið var stofnun Flugþróunarsjóðs. Grunnurinn var lagður árið 2015, en sjóðurinn tók til starfa árið 2016. Flugþróunarsjóður hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Þannig er stuðlað að betri dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, bættri nýtingu innviða ríkisins, bættum búsetuskilyrðum og lífsgæðum heimamanna og bættum rekstrarskilyrðum atvinnureksturs á Norður- og Austurlandi. Frá stofnun sjóðsins hefur verið unnið markvisst að kynningu hans til flugfélaga og ferðaskrifstofa. Sú vinna er farin að skila sér þrátt fyrir miklar áskoranir. Til að mynda Covid faraldurinn, sem setti verulegt strik í reikninginn.

 

Uppbygging innviða

Uppbygging og rekstur flugvalla er kostnaðarsöm og veigamikil fjárfesting og ekki sjálfsagt að fjármunum sé forgangsraðað í þágu slíkrar uppbyggingar. Á síðustu árum hefur gríðarmikil uppbygging verið sett á oddinn, bæði hvað varðar uppbyggingu á Akureyrarflugvelli, en einnig á Egilsstöðum. Má þar nefna fjárfestingar í tæknibúnaði, flugstöð og flughlöðum. Síðastliðið sumar var nýtt flughlað tekið í notkun við Akureyrarflugvöll og undirbúningur framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll er á fullu skriði. Skóflustunga að nýrri flugstöð við Akureyrarflugvöll markaði langþráð tímamót og nýverið fóru fyrstu farþegarnir í millilandaflugi þar í gegn. Innan skamms verður flugstöðin fullgerð og má með sanni segja að uppbyggingin marki nýja sókn þegar kemur að lífsgæðum íbúa og starfsskilyrðum atvinnulífs á svæðinu. Stefnan til framtíðar var formfest í Flugstefnu Íslands árið 2019, en þar kemur fram að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðarflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Enn fremur að við uppbyggingu innviða vallanna verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi, en þar verði Egilsstaðaflugvöllur í forgangi.

Stefna Framsóknar

Stefna Framsóknar er skýr þegar kemur að þessu máli, enda hafa þingmenn og ráðherrar flokksins stutt rækilega við þetta brýna verkefni um langt skeið. Sérstaklega má í því samhengi nefna áherslur og verk Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem farið

hefur með samgöngumál og þar með talið flugvelli landsins um árabil og Lilju Daggar Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarráðherra sem fer með málefni ferðaþjónustunnar. Flokkurinn stendur heilshugar að baki þessum áherslum en í nýsamþykktri ályktun 37. Flokksþings Framsóknar kemur fram að: ,,Framsókn leggur áherslu á styrkingu millilandaflugs um Akureyri og Egilsstaði til að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið. Tryggja þarf samkeppnishæfni flugvallanna m.t.t. aðstöðu, lendingargjalda og eldsneytisverðs. Byggja þarf upp samhæft samgöngunet í landinu, sem tengir saman innlent og alþjóðleg samgöngunet, hvort heldur sem er flug eða áætlunarferðir á sjó og landi.“

Að lokum

Mikilvægt er að áfram verði unnið markvisst að uppbyggingu beins flugs til Akureyrar og Egilsstaða. Nauðsynlegt er að þróun innviða á alþjóðaflugvöllunum taki mið af framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 einkum hvað varðar dreifingu ferðamanna, samkeppnishæfni og ávinning heimamanna.

 

Við þekkjum vel hversu viðkvæmt verkefnið er, það krefst úthalds og þrautseigju og þó það ári vel núna megum við ekki missa dampinn. Samstaða og framsýni allra sem að þessu verkefni koma skiptir verulegu máli því alltaf verða til staðar tækifæri til að gera enn betur.


Athugasemdir

Nýjast