Gæði hvalaskoðunarferða hafa aukist

Sumarið hefur verið gott og mikið að gera. Fjöldi farþega er síst minni en var fyrir kórónuveirufara…
Sumarið hefur verið gott og mikið að gera. Fjöldi farþega er síst minni en var fyrir kórónuveirufaraldur og jafnvel fleiri. Hér er Hólmasól að leggja frá Torfunefsbryggju. Mynd MÞÞ

„Sumarið hefur verið mjög gott og mikið að gera. Mín tilfinning er sú að við séum á svipuðu róli og sumarið 2019, fyrir kórónuveiru. Þetta sumar er alls ekki síðra og jafnvel betra, án þess við höfum tekið saman tölur,“ segir Arnar Sigurðsson skipstjóri og útgerðarstjóri hjá Akureyri Hvalaskoðun. Fyrirtækið gerir úr þrjá hvalaskoðunarbáta frá Torfunefsbryggju á Akureyri, Hólmasól, Ambassador og Konsúl auk þriggja skemmtibáta, svonefndar Rib báta sem taka 12 manns í ferð og fara hratt yfir.

Arnar er Húsvíkingur og hefur umfangsmikla reynslu af ferðaþjónustu og hvalaskoðun, en hann stofnaði eigið fyrirtæki á því sviði í heimabæ sínum árið 1994. Norðursigling keypti það fyrirtæki af honum síðar og þá réð hann sig til Gentle Giant þar sem hann starfaði um árabil. Hann hefur undanfarin sjö ár, frá 2016 starfað hjá Akureyri Hvalaskoðun. „Maður hefur nú séð ýmislegt á þessum tæpu þremur áratugum sem liðnir eru frá því ég byrjaði í þessum bransa,“ segir hann.

Hnúfubakar sáust ekki fyrstu árin

Margt hefur breyst frá því fyrstu skrefin í hvalaskoðun hér við land voru stigin. Arnar nefnir að gæði ferðanna hafi aukist, bátarnir séu betri en áður og fleiri hvalir sjáist en á fyrstu árunum. Segir hann að hvalaskoðunarferðir fyrri ára hafi snúist mikið um að sjá hrefnur. „Hnúfubakar sáust ekki á þessum árum, þeir fara fyrst að sjást í þessum ferðum í kringum aldamótin og hefur fjölgað umtalsvert með árunum,“ segir hann. Náttúrulega sveiflur í hvalastofnum skýri ef til vill hversu mikið er um hval við Íslandsstrendur en undanfarin ár hafa verið góð og undantekningarlaust sjái farþegar hvalaskoðunarbátanna einhverja hvali.

Arnar segir að gæði ferðanna hafi aukist til muna með árunum og mikið sé lagt upp úr að upplifun farþega sé sem allra best. Flestir leiðsögumenn hjá Akureyri Hvalaskoðun séu menntaði sjávarlíffræðingar með mikla þekkingu á lífríki sjávar sem þeir miðla áfram til farþega. Sem einnig fá fræðslu um staðhætti í Eyjafirði, fjöllin, strýturnar, síldarverksmiðjuna á Hjalteyri og um Hrísey svo eitthvað sé nefnt. Þannig auki þeir þekkingu sína í ferðunum auk þess að sjá hvali, en margir eru að sjá slíkar skepnur í fyrsta skipti á ævinni. „Okkar fólk þekkir fjöldann allan af einstaklingum hér í firðinum, um 450 hnúfubaka í allt, það nægir að þeir skvetti upp sporðinum og þeir vita hver er þar á ferð,“ segir hann.  Þá nefnir Arnar að allir sem starfi um borð í hvalaskoðunarbátum hafi lokið námskeiði á vegum Slysavarnarskóla sjómanna í hóp- og neyðarstjórnun. „Flestu hefur fleygt fram og er til mikilla bóta,“ segir hann.

Tekur 200 manns

Þeir bátar sem notaðir eru nú til hvalaskoðunar eru að sögn Arnars betri en var í eina tíð og margir sérhannaðir fyrir skoðun af þessu tagi. Hólmasól sem dæmi hentar einkar vel til hvalaskoðunar en báturinn var áður ferja í Noregi. Honum var breytt fyrir nýtt hlutverk hér á landi og sérhannaður til hvalaskoðunar, en margir pallar í mismunandi hæð eru í boði fyrir farþega auk þess sem hægt er að vera innandyra líka. „Breyting á bátnum var mjög vel heppnuð og við finnum ekki annað en farþegar séu hæst ánægðir með ferðirnar,“ segir hann. Hólmasól tekur í allt 200 manns, átta eru í áhöfn og farþegar þegar uppselt er 192 talsins.

Farþegar í hvalaskoðunarferðum frá Torfunefsbryggju eru að stórum hluta farþegar skemmtiferðaskipanna sem viðkomu hafa á Akureyri. Hvalaskoðunarferðir eru í boði fyrir þá farþega sem fara í land og segir Arnar mjög vinsælt að bóka sig í slíkar ferðir. „Farþegar stóru skipanna sjá ekki hvali, enda er ekki verið að leita þeirra heldur. Þau eru of stór og stirð til þess. En greinilega fýsir marga að sjá hvali í siglingunni hér um slóðir miðað við hve margir fara í þessar ferðir yfir sumarið.“

Talsverð umsvif í hvalaskoðun í Eyjafirði

Arnar segir að umsvif hvalaskoðunarfyrirtækjanna í Eyjafirði séu umtalsverð. Bátar eru gerðir út til hvalaskoðunar frá Akureyri, Hjalteyri, Hauganesi, Dalvík og Grenivík, fjölmargir bátar og margt starfsfólk komi þar við sögu. Hjá Akureyri Hvalaskoðun starfa á bilinu 20 til 30 manns í sumar. „Það er mikil og góð samvinna á milli hvalaskoðunarfyrirtækjanna hér í Eyjafirði, hún er alveg til fyrirmyndar,“ segir hann. Starfsfólk upplýsi hvort annað um hvort dýr sé að sjá á þeim slóðum sem þau eru að fara um og ef einn bátur er í námunda við hvali doki hin á meðan til að styggja það ekki.

Arnar segir að stundum nægi að sigla út fyrir Svalbarðseyri til að koma auga á hvali, en oft þurfi að fara aðeins lengra, út að Hauganesi eða Hrísey. „Við förum þangað sem dýr er að finna, siglum lengra út ef þarf. Yfirleitt sjáum við alltaf eitthvað af dýrum.“


Athugasemdir

Nýjast