Fyrsti hópurinn sem lýkur Háskólabrú á Akureyri
Að loknu námi uppfylla nemendur inntökuskilyrði í háskóla hérlendis og erlendis og telst námið sambærilegt stúdentsprófi samkvæmt samningi Keilis, HÍ og menntamálaráðuneytisins. Markmiðið með náminu er að veita nemendum góðan undirbúning fyrir krefjandi háskólanám. Mikil áhugi hefur verið hjá fólki að ljúka framhaldsskólastiginu og hafa margir þátttakendur varðað sína leið í gegnum svokallaðar Menntastoðir sem er viðurkennd námsleið og veitir allt að 50 einingar inn á Háskólabrú. Námið er lánshæft hjá LÍN og SÍMEY mun bjóða aftur upp á þetta nám í haust. Enn er hægt að skrá sig á heimasíðu Keilis.
Raunfærnimat fyrir starfsmenn grunn- og leikskóla
Nú í vor fóru 29 þátttakendur í gegnum raunfærnimat á móti stuðningsfulltrúa-, leikskóla og skólaliðabrú. Alls luku þessir þátttakendur 336 einingum á framhaldsskólastigi til styttingar á brúarnámi. Þátttakendur komu af öllu Eyjafjarðarsvæðinu frá Ólafsfirði fram í Eyjafjarðarsveit, af hinum ýmsu leik- og grunnskólum og öðrum vinnustöðum. Raunfærnimat er viðurkennt matsferli sem hægt er að fara í gegnum ef viðkomandi hefur marktæka starfsreynslu að baki. Hugmyndafræðin felur það í sér að meta starfsreynslu í lífi og starfi til styttingar á námi. Einnig felur raunfærnimatið í sér mikla viðurkenningu á störfum fólks. Það er síðan alltaf val hvers og eins hvort hann heldur áfram í frekara nám. Reynslan af svona verkefnum er afar jákvæð og í henni er fólgin mikil hvatning til frekari uppbyggingar. Frekari upplýsingar um raunfærnimat veitir Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar.
Félagsliðar útskrifast
Þá útskrifaði SÍMEY 18 félagsliða en þetta er í fyrsta skipti sem SÍMEY kennir félagsliðabrú. Starfsvettvangur nemenda er fjölbreyttur, innan sambýla, heimaþjónustu, öldrunarheimila, skólakerfis o.s.frv. Viðfangsefnin eru afar fjölbreytt í náminu m.a. næringarfræði, fötlun, öldrun, sálfræði, heilbrigðisfræði. Áhersla er lögð á fjölbreytni í verkefnaskilum, námsmati og samvinnu nemenda. Félagsliðabrú er ætluð fólki sem vinnur við umönnun, t.d. á öldrunarheimilum, í heimaþjónustu, grunnskóla, eða við heimahlynningu. Þetta er fjögurra anna eininganám sem kennt er samkvæmt námsskrá menntamálaráðuneytisins. Námið er 32 einingar og eru kenndar 8 einingar á hverri önn.
Námið er fyrir einstaklinga sem eru orðnir 22ja ára og hafa þriggja ára starfsreynslu við umönnun. Umsækjendur þurfa að hafa lokið starfstengdum námskeiðum. Félagsliðanámið hefur fest sig í sessi og er viðurkennt á vinnumarkaði og eru félagsliðar eftirsótt starfsstétt. Mikil ánægja hefur verið með námið meðal nemenda og vinnuveitenda. Starfsnám af þessu tagi eflir einstaklinga í sínu starfsumhverfi í kröfuhörðum störfum, hækkar menntunarstig og bætir vinnustaðina. Ásókn hefur verið í námið og greinilega þörf á þessu námi hér á svæðinu, annar hópur mun ljúka náminu vorið 2012 og verið er að innrita í nýjan hóp sem mun hefja nám í ágúst næstkomandi.