Fyrsta tölublaðið hefur nú litið dagsins ljós og opnað hefur verið fyrir rafrænan aðgang að tímaritinu á heimasíðunni http://www.thjodfelagid.is/. Tímaritinu er ætlað að vera vettvangur fyrir fjölbreytilegar rannsóknir á íslenska þjóðfélaginu og hvatt er til framlags frá öllum sérsviðum hug- og félagsvísinda sem aukið geta skilning á íslenska þjóðfélaginu sem félagsfræðilegu viðfangsefni. Höfundar og ritrýnar tímaritsins eru meðal helstu sérfræðinga heims um íslenskt þjóðfélag og er því ætlað að vera meðal helstu fræðitímarita á því sviði. Kennarar og sérfræðingar við Háskólann á Akureyri eru sérstaklega hvattir til að senda tímaritinu handrit að greinum.
Allar greinar eru ritrýndar nafnlaust af tveimur til þremur ritrýnum sem jafnframt njóta nafnleyndar. Ákvörðun um birtingu, höfnun eða boð um endurgerð er að jafnaði tekin innan þriggja mánaða frá því að handrit berst. Tímaritið er gefið út í opnum aðgangi á netinu og munu greinar birtast jafnóðum og þær hafa verið samþykktar. Hver árgangur tímaritsins er jafnframt gefinn út á prentuðu formi í árslok.