Fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili við Vestursíðu

Á morgun, föstudaginn 11. mars kl. 14:00, verður tekin fyrsta skóflustunga að nýju hjúkrunarheimili við Vestursíðu 9 á Akureyri. Þar á að rísa  45 hjúkrunarrýma hjúkrunarheimili á árunum 2011-2012. Heildarkostnaður er áætlaður um 1,25 milljarðar króna auk búnaðar. Stærð húss er brúttó áætlað um 3.375 m² og stærð lóðar er 16.340 m².  

Hjúkrunarheimilið verður byggt og rekið samkvæmt Eden Alternative hugmyndafræðinni sem hefur verið að ryðja sér til rúms víða um heim. Hugmyndafræðin leggur áherslu á að öldrunarheimili séu heimili þeirra sem þar búa. Áhersla er á sjálfræði íbúanna, virðingu, einstaklingsmiðaða þjónustu og að fólki finnist lífið hafa tilgang þrátt fyrir heilsuleysi. Byggðir verða fimm íbúðakjarnar og verða níu íbúðir í hverjum kjarna, ásamt borðsal, eldhúsi, setustofu, vinnurými, þvottahúsi og geymslum. Kjarnarnir eru tengdir saman með göngum og er stór samkomusalur inn á milli kjarnanna, þar er að auki iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun og skrifstofa deildarstjóra. Allir eru velkomnir þegar skóflustungan verður tekin á morgun.

Nýjast