Fyrirtæki misnota orlofsrétt starfsmanna

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar.
Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar.

Einhver brögð eru að því að atvinnurekendur þrýsti á starfsfólk sitt að taka sér orlof á meðan fyrirtæki eru lokuð yfir jól og áramót og losi sig þannig undan launagreiðslum.

Aðalsteinn Á. Bladursson, formaður Framsýnar staðfestir þetta í samtali við Vikudag. „Það sem við sjáum núna af því að hér á svæðinu eru orðin miklu meiri umsvif en verið hefur þá erum við að  rekast á fyrirtæki sem fara þá leið að spara sér pening um jólin og stoppa þá,“ segir hann og bætir við: „Þarna eru aðilar sem hafa verið með vakta- og helgarvinnu þá eru  menn að ýta að starfsmönnum að taka sér sumarorlof að  hluta á þessum tíma. Þar með eru menn að losa sig undan greiðsluskyldunni og við þetta höfum við verið að gera athugasemdir og fengið okkar lögmenn til að skoða hvort þetta sé heimilt eða ekki“.

Aðalsteinn segir að það séu mál í byggingariðnaði sem hafa verið að rata inn á borð stéttarfélagsins.

Ekki heilmilt

Í svari frá lögmanni Framsýnar kemur skýrt fram að þetta sé óheimilt. Atvinnurekanda er heimilt að loka fyrirtæki sínu á meðan að starfsfólk er í orlofi en æskilegt sé að ákvörðun um slíka lokun liggi fyrir eigi síðar en 1. apríl ár hvert.

Samkvæmt orlofslögum skal veita orlof á tímabilinu 2. maí til 15. september. Meginreglan sé því sú að orlof skuli veitt að sumri til en samkvæmt 5. grein laganna ber atvinnurekanda að ákveða í samráði við starfsmenn hvenar orlof skuli veitt. Þegar orlofstaka hefur verið könnuð skal atvinnurekandi tilkynna um tilhögun orlofstöku svo fljótt sem auðið er, og eigi síðar en mánuði fyrir töku þess.

Ef atvinnurekandi hyggst af einhverjum orsökum flytja hluta orlofs yfir á vetrartímann verða að liggja fyrir því sérstök rök sem byggja á rekstrarástæðum fyrirtækisins. Telji atvinnurekandi að nauðsynlegt sé að loka fyrirtækki sínu yfir hátíðir ber honum að gera ráð fyrir því þegar við skipulagningu orlofs að vori þannig að starfsmenn geri sér grein fyrir því fyrirfram að orlof þeirra verði skipt í sumar og vetrarorlof. Undir engum kringumstæðum er atvinnurekanda heimilt að ákveða undir lok árs að fyrirtæki loki yfir hátíðir og starfsmenn hefji þá orlofstöku, sem þeir ella hefðu átt að taka á næsta sumri eftir lokunina.“

Álit lögmannsins má lesa í heild sinni með því að smella hér.

Nýjast