Fundur haldinn með íbúum við Hólabraut og Laxagötu vegna breytingu á deiliskipulagi

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingamála felldi á dögunum úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar um að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsnæði ÁTVR að Hólabraut 16 á Akureyri. Í framhaldi af málinu lagði skipulagsstjóri fram í samráði við formann skipulagsnefndar, fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi norðurhluta miðbæjar, á fundi ráðsins í vikunni.  

Skipulagsnefnd samþykkti jafnframt að haldinn verði fundur með íbúum við Hólabraut og Laxagötu þar sem framlögð tillaga að deiliskipulagsbreytingu verði kynnt. Það voru íbúar við Laxagötu sem sendu kæru til úrskurðarnefndar þá ákvörðun að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Hólabraut 16. Á málsrökum kærenda kemur m.a. fram að umdeild byggingaráform séu í trássi við þá staðreynd að um sé að ræða svæði með íbúðarhúsum.  Augljóst sé að rekstur vínbúðar á umræddum stað eigi enga framtíð fyrir sér nema áform séu uppi um að ráðast í að rífa fleiri íbúðarhús á svæðinu til að uppfylla bílastæðaþörf fyrir stærri verslun.  Með þessum áformum sé freklega gengið gegn rétti íbúa svæðisins. 

Nýjast