Fundargerð Veðurklúbbs Dalbæjar, sjötta júní 2023

Mynd  Veðurklúbbur Dalbæjar
Mynd Veðurklúbbur Dalbæjar

Mætt voru, Haukur Haraldsson, Bergur Þór Jónsson, Hörður Kristgeirsson, Magnús Gunnlaugsson, Jón Garðarsson, Kristján Loftur Jónsson og Þóra Jóna Finnsdóttir. 

 Við byrjuðum fundinn á að hlusta saman á útvarpsviðtal sem þáttarstjórnendur í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni tóku við ritara klúbbsins síðastliðinn þriðjudag varðandi starfsemi Veðurklúbbs Dalbæjar. 

Félagar voru almennt sáttir við upplýsingarnar sem komu fram og samþykktu því að ritarinn svaraði áfram fyrir klúbbinn. 

 En því næst fórum við yfir tunglkomur sem tengjast júní mánuði og urðum sammála um að líklegast yrði áfram ríkjandi suðvestan átt á landinu sem er okkur hérna á stór Dalvíkursvæðinu mjög hagstæð, en því miður ekki endilega eins gott fyrir suðvestur hornið 🫣

 Engir voru draumar félaga að þessu sinni sem gátu tengst veðri í júnímánuði en tilfinningin hjá flestum var sú að júní yrði að mestu leyti svipaður maí en líklega hlýrri einhvern hluta. Það er jákvætt fyrir okkur og líklega fyrir ferðaþjónustu hérna á Norðurlandi, það er að segja ef ferðamenn eru flestir það forsjálir að skoða veðurspána okkar áður en ferðaplön eru endanlega ákveðin 😁

 Í framhaldi af því skoðuðum við hverju samkeppnisaðilar okkar á öðrum veðurstofum væru að spá næstu vikuna og þar virtist vedur.is , belgingur.is og yr.no vera í meginatriðum sammála bæði sín á milli og okkur.

 Júní hefur jafnan verið 

Misjafn hingað heim á skerið

En hlustið nú

Því okkar trú

Er að við þurfum húfuderið.

 Höf. Bjór. 

 

 Hlýr er júní blíður blær,

blóm á túnum gróa.

Geislarúnir röðull skær

ritar á Húnaflóa.

 Höf.Bragi Jónsson Hoftúnum í Staðarsveit (Refur bóndi)

 

 Skúr er nú í Skagafirði

skyldi hann ekki batna senn.

Andskotinn þá alla hirði

sem ausa vatni á gamla menn

Höf. Gestur Ólafsson.

 


Athugasemdir

Nýjast