Velvilji almennings, félagasamtaka, fyrirtækja og fleiri skiptir miklu máli fyrir sjúkrastofnanirnar í landinu, eins og dæmin sanna. Samkvæmt upplýsingum Vignis Sveinssonar framkvæmdastjóra fjármála og reksturs hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri, hefur FSA fengið gjafir að upphæð um 516 milljónir króna að núvirði, á 25 ára tímabili, frá árinu 1986 til ársloka 2010.
Þar af bárust spítalanum um 100 milljónir króna á síðasta ári, sem eru hæstu framlög sem spítalanum hafa borist á einu ári og voru þá jafn há framlagi ríkissjóðs til kaupa á tækjum og búnaði. "Næst þar á undan voru framlög 2008 rúmar 80 milljónir. Annars hefur þetta verið mjög breytilegt frá ári til árs en að meðaltali um 20 milljónir á ári á þessu 25 ára tímabili," segir Vignir.
Uppistaða gjafanna sem bárust FSA í fyrra voru tvö framlög, annars vegar frá einstaklingi sem ekki vildi láta nafns síns getið en þar mun vera um að ræða "stærstu" gjöf einstaklings frá upphafi, og hins vegar erfðagjöf sem líka var ein af stærstu gjöfum sem sjúkrahúsið hefur fengið, að sögn Vignis.
"Auk þess eru margar "minni" gjafir sem ekki eru síður mikilvægar, allar gefnar af góðum hug. Velunnarar sjúkrahússins eru fjölmargir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar. Framlög eru með ýmsum hætti, peningagjafir, tæki afhent, safnanir, sala á minningarkortum, minningargjafir og erfðagjafir. Samtals bárust um 70 gjafaframlög á síðasta ári, auk sölu á minningarkortum," segir Vignir.
Varið til kaupa á lækningatækjum og búnaði
"Öll framlög renna í sérstakan sjóð, Gjafasjóð FSA, og er þeim varið til kaupa á lækningatækjum og búnaði í þágu sjúklinga. Af þeim tækjum sem keypt eru fyrir gjafafé fæst endurgreiddur virðisaukaskattur. Þessi gjafaframlög skipta sköpum fyrir möguleika sjúkrahússins til að endurnýja tækjabúnað sinn og fylgja eftir í framþróun og tækni. Ekki hvað síst skiptir þetta miklu máli nú þegar framlög ríkisins hafa dregist saman að raungildi vegna efnahagsþrenginganna. Framlög ríkissjóðs til kaupa á tækjum og búnaði 2010 voru 103 milljónir. Meðal tækja sem keypt voru fyrir gjafafé á síðasta ári voru tæki til hjartalækninga og tæki til skurðlækninga að verðmæti um 35 milljónir," segir Vignir ennfremur.
Hann segir að starfsfólk FSA sé mjög þakklátt fyrir þann hlýhug og vilvilja sem stofnuninni er sýndur af öllum þeim sem lagt hafa liðsinni sitt með framlögum sínum, stórum og smáum.