Frönsk kvikmyndahátíð í Borgarbíói á Akureyri

Franska kvikmyndahátíðin 2011 var haldin dagana 21. janúar til 3. febrúar í Háskólabíói í Reykjavík og verður nú opnuð í Borgarbíói á Akureyri dagana 12. til 16. febrúar. Franskar kvikmyndir hafa markað djúp spor í menningararfleið síðustu áratuga, eru í stöðugri framþróun og njóta mikilla vinsælda í Frakklandi og á alþjóðlegum vettvangi.  

Gríðarleg fjölbreytni, gróska og frumleiki einkenna franska kvikmyndagerð nú um stundir og franskar kvikmyndahátíðir eru tíðir viðburðir um allan heim. Hátíðin er nú haldin á Íslandi í ellefta sinn. Franska sendiráðið, Alliance Française og kanadíska sendiráðið standa að hátíðinni ásamt samstarfsaðilum á borð við Græna ljósið, Akureyrarstofu, veitingahúsið RUB 23, félag kvikmyndaáhugafólks á Akureyri og Borgarbíó. Hátíðin er merkur þáttur í að efla menningartengsl Íslands og Frakklands og hún er að auki fyrsti liðurinn í einstakri afmælisdagskrá Alliance Française á Íslandi, en félagið fagnar 100 ára afmæli á þessu ári.

Opnunarmynd hátíðarinnar „Bara húsmóðir" er splunkuný gamanmynd sem skartar stórleikurunum Catherine Deneuve og Gérard Depardieu í aðalhlutverki. Nokkur þemu verða á hátíðinni að þessu sinni. Kvikmyndirnar „Velkomin" og kanadíska kvikmyndin „Lífslöngun" fjalla um málefni minnihlutahópa, ýmist í gríni eða alvöru. „Hvítar lygar" fjalla um ástir, lygar og margbreytileika mannlegra samskipta. Loks er ævintýrið í öndvegi í „Adèle Blanc-Sec", en þessi nýjasta mynd leikstjórans Luc Besson byggir á vinsælum teiknimyndasögum eftir Jacques Tardi.

Nýjast