Frjálsar íþróttir fara á nýtt KA-svæði

Við metum það þannig í framkvæmdastjórn Þórs að frekari viðræður um uppbyggingu frjálsíþróttaaðstöðu á Þórssvæðinu séu tilgangslausar. Þetta er niðurstaða fundar sem við héldum nú í hádeginu og í þessum töluðu orðum er ég á leiðinni með bréf þessa efnis til formanns íþróttaráðs," sagði Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs í samtali við Vikudag fyrir stundu. Ólafur Jónsson formaður Íþróttaráðs segir ljóst að gripið verði til varaáætlunar, sem sé að uppbygging fyrir frjálsar íþróttir fari fram á nýju KA svæði í Naustahverfi.

Ólafur segir að þessi niðurstaða hjá forustu Þórs í dag þýði að menn verði að grafa upp úr skúffum áætlanir varðandi nýtt svæði KA í Naustahverfi, en sér sé engin launung á því að þetta séu vonbrigði enda hefðu orðið samlegðaráhrif af því að hafa frjálsar íþróttir á Hamarssvæðinu þar sem innahúss aðstaða sé fyrir hendi. Ólafur segir að möguleikinn á að byggja upp fyrir frjálsar íþróttir á nýja KA svæðinu hafi einungis lítillega verið skoðaður og það sé áhugi hjá forustusveit KA að gera eitthvað myndalegt átak í tengslum við nýja svæðið fyrir stórafmæli félagsins á næsta ári. Hann telur einsýnt að nú muni menn einhenda sér í að kanna þennan valkost og stefna að því að búið verði að klára uppbygginguna á tveimur árum eða fyrir Landsmóti UMFÍ sem verður í júlí 2009.

Varðandi framhald á viðræðum við Þór segir Ólafur að þær muni halda áfram í haust og að bærinn muni standa heill að því að byggja upp aðstöðuna úti í þorpi.

Nýjast