Fremur slakt ár í kornrækt vegna óhagstæðs tíðarfars

„Árið verður mjög sennilega fremur slakt hvað kornið varðar hér á Norðurausturlandi, í besta falli slakt meðalár," segir Ingvar Björnsson ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar um kornuppskeru eftir sumarið. Hann kveðst hafa á tilfinningunni að sáð hafi verið í heldur stærra landssvæði á liðnu vori heldur en í fyrra og gerir ráð fyrir að korni hafi verið sáð á um það bil 750 til 800 ha svæði í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum.  

Vorið hafi verið seint á ferðinni og almennt var korni því sáð seint. „Það spratt hins vegar vel fyrri hluta sumars en tíðarfar í ágúst var mjög óhagstætt korninu og akrar gulnuðu seint," segir Ingvar.  Þresking var eins og að líkum lætur því seint á ferð og er henni ekki lokið enn. „Uppskeran er mjög misjöfn, frá því að vera nokkuð góð og niður í það að vera mjög léleg eða engin. Þá var nokkuð um frostskemmdir á korni síðan í næturfrostum í júlí og ágúst og almennt eru korngæði lakari í ár en undanfarin ár," segir Ingvar. Árið verði því  sennilega fremur slakt kornár Norðaustanlands og í besta falli slakt meðalár.

Ingvar segir að bændur noti kornið heima við eða selji það til fóðurgerðar. Í Eyjafirði eru tvær þurrkstöðvar sem taka á móti korni til þurrkunar annars vegar á Hjalteyri og hins vegar á Þverá í Eyjafirði. Í Suður-Þingeyjarsýslu eru einnig tvær þurrkstöðvar annars vegar á Kvíabóli í Köldukinn og hins vegar færanlegur þurrkari sem staðsettur er í Aðaldal. Kornuppskeran á svæðinu liggur nærri 2.000 tonnum og líklega er ríflega helmingur hennar þurrkaður en restin sýruverkuð heima á bæjum.

Nýjast