Framkvæmdir við miðbæjarbyggingu stopp
Framkvæmdir við nýbyggingu við Hofsbót 2 í miðbæ Akureyrar hafa ekki verið í gangi um skeið. Fyrirtækið Boxhús er að reisa húsið og sá byggingafyrirtækið SS-Byggir um framkvæmdir. Það fyrirtæki hefur sagt sig frá verkinu sökum anna við önnur verkefni og segir Valdimar Grímsson eigandi Boxhús að leit standi yfir að öðrum verktaka. „Það er erfitt að finna menn í þetta verkefni fyrir norðan,“ segir Valdimar.
Ástæðu þess að verkið er stopp má einnig rekja til þess að endanlegar verkteikningar eru ekki klárar. Þá má nefna að kæra frá tveimur eigendum íbúða við Hofsbót 4 barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála þar sem kærð var sú ákvörðun bæjarstjórnar Akureyrar frá 1. febrúar síðastliðnum að samþykkja breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Akureyrar. Jafnframt var kærð ákvörðun byggingafulltrúa Akureyrar frá 2. júní 2022 um að veita byggingaleyfi fyrir fjölbýlishúsi á lóðinni númer 2 við Hofsbót. Úrskurðarnefndin vísaði fyrri kröfunni frá og hafnaði þeirri seinni.
Athugasemdir