Framhaldsskólinn á Laugum án almenningssamgangna

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.
Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar.

SBA-Norðurleið hefur tekið við akstri Strætó, leið 79 Húsavík-Akureyri eftir útboð Vegagerðarinnar s.l. haust á óbreyttum leiðum. Þann 1. janúar hóf SBA akstur og í kjölfarið var leið 79 breytt. Nú ekur Strætó frá Húsavík til Akureyrar í gegnum Kaldakinn og þar með hafa tvær stoppistöðvar verið felldar út í Þingeyjarsveit, á Laugum og á Fosshóli.   

Þessi breyting var gerð án þess að nokkurt samband eða samráð væri haft við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar en hefur í för með sér umtalsverða skerðingu búsetugæða í stórum hluta sveitarfélagsins. Jafnframt gerir þessi breyting það að verkum að Framhaldsskólinn á Laugum er nú utan almenningssamgangnakerfis sem er þvert gegn þeirri stefnumörkun sem kynnt var þegar Vegagerðin tók yfir almenningssamgöngur á landsbyggðinni. Í lögum um samgönguáætlun er kemur fram að við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.

Á fundi sveitarstjórnar kom fram að sveitarstjóri Þingeyjarsveitar hefur sett sig í samband bæði við Vegagerðina og Strætó og óskað eftir upplýsingum og gögnum um með hvaða hætti og á hvaða forsendum þessi pólitíska ákvörðun var tekin. Engin gögn hafa borist þrátt fyrir fyrirheit þar um.

Sveitarstjórn felur því sveitarstjóra að koma á fundi, sem allra fyrst, með fulltrúum þessara stofnana. Jafnframt felur sveitarstjórn sveitarstjóra að óska eftir fundi með samgöngumálaráðherra. Þegar Vikublaðið hafði samband við Dagbjörtu Jónsdóttur á þriðjudag hafði enginn fundur átt sér stað við þessa aðila. Hún sagði jafnframt að þessi ákvörðun að fella út báðar stoppistöðvarnar í Þingeyjarsveit hefði mikil áhrif fyrir íbúa á svæðinu. „Bæði fyrir þá sem stunda vinnu á Akureyri sem og nemendur Framhaldsskólans á Laugum. Þessi ákvörðun er þvert gegn þeirri stefnumörkun sem kynnt var þegar Vegagerðin tók yfir almenningssamgöngurnar en áhersla var lögð á að tengja alla framhaldsskólana á svæðinu við leiðakerfi Strætó og nú er Framhaldsskólinn á Laugum eini skólinn sem er utan þess,“ segir Dagbjört.

Dagbjört segir jafnframt að um pólitíska ákvörðun sé að ræða. „Hún er tekin meðal embættismanna Vegagerðarinnar án nokkurs samráðs við okkur í Þingeyjarsveit, [við] fengum ekki einu sinni tilkynningu um þessa breytingu sem er óásættanlegt,“ segir hún og bætir við að eina svarið sem Vegagerðin hefur gefið sé að ákvörðunin sé tekin vegna hagræðingakröfu.

„Ég hef ekki enn fengið frekari útskýringar eins og tölulegar upplýsingar né önnur gögn sem mér er sagt að hafi verið lögð til grundvallar ákvarðanatökunni. Þetta er bara dæmi um illa ígrundaða ákvörðun þar sem ekki er horft til staðhátta líkt og hvar framhaldsskólar eru staðsettir á þessu svæði. Við höfum ákveðinn skilning á hagræðingarkröfu en almenningssamgöngur þjóna mikilvægu hlutverki og því þarf að horfa til samfélagslegra sjónarmiða við ákvarðanatöku en ekki eingöngu á tölur í exelskjali.,“ sagði Dagbjört á þriðjudag og bætti við að hún hafi ekki enn fundað með ráðherra samgöngumála.

Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA sagðist í samtali við Vikublaðið ekki hafa fengið neina upplýsingar frá Vegagerðinni um að það kæmi til greina að endurskoða ákvörðun um að fella út stoppistöðvarnar tvær.


Nýjast