Framhaldsskólinn á Húsavík hlaut jafnlaunavottun

Framhaldsskólinn á Húsavík. Mynd/epe
Framhaldsskólinn á Húsavík. Mynd/epe

Framhaldsskólinn á Húsavík hlaut jafnlaunavottun 12. október s.l. og hefur því leyfi til að nota jafnlaunamerki Jafnréttisstofu næstu þrjú árin.

„Við erum stolt af þeirri vinnu sem hefur farið fram innan stofnunarinnar og er vottunin staðfesting á því að Framhaldsskólinn á Húsavík leggur ríka áherslu á að jafna stöðu karla og kvenna,“ segir í tilkynningu á vef skólans

jafnlaunastefna Framhaldsskólans á Húsavík gerir ráð fyrir að allir starfsmenn njóti jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf þannig að launamunur sé ekki til staðar. Umfang jafnlaunastefnunnar tekur til allra starfsmanna skólans.

Samkomulag hefur verið gert við vottunaraðila um að gera úttekt í mars hvert ár á jafnlaunastefnu og kerfi Framhaldsskólans á Húsavík. Geri vottunaraðili á einhverjum tímapunkti athugasemdir varðandi launasamsetningu einhverra starfa mun samsetning vera endurskoðuð í kjölfar ábendingar og lagfærð.

 

Jafnlaunastaðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi, á grundvelli hans geta fyrirtæki og stofnanir fengið jafnlaunavottun. Staðallinn nýtist öllum fyrirtækjum og stofnunum óháð stærð, starfsemi, hlutverki og kynjahlutfalli. Hann tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns.

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr.10/2008.

Samkvæmt lögunum skal jafnlaunavottun byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Jafnlaunastaðalinn ÍST 85 er hægt að nálgast hjá Staðlaráði Íslands.

Faggiltur vottunaraðili metur hvort öll skilyrði staðalsins hafi verið uppfyllt og séu þau uppfyllt veitir hann viðkomandi fyrirtæki eða stofnun jafnlaunavottun.


Nýjast