Könnunin á viðhorfum leikskólalennara var gerð vorið 2008. Þátttaka í könnuninni var góð og svörunin sýnir mikla
ánægju kennara með leikskólann sem vinnustað. Kennarar eru sammála um að leikskólar Akureyrarbæjar séu framsæknir vinnustaðir
þar sem samstarf milli starfsmanna og stjórnenda er gott, þar sem góður starfsandi er og það ríkir traust milli samstarfsmanna. Kennarar eru almennt
sammála um að starfssvið þeirra sé skýrt og vel afmarkað og upplýsingar um starf kennara og stefnu skólans í þeim efnum séu
aðgengilegar. Að meðaltali lýsa tæp 90% kennara sig sammála fullyrðingum er varða stjórnun skólanna, að tími á
starfsmannafundum sé vel nýttur til að ræða mikilvæg mál skólastarfs, að álitamál um stefnu og starf séu rædd
opinskátt og að skólastjórnendur veiti starfinu markvissa forystu. Almennt eru kennarar á því að skólarnir hafi skýra agastefnu og taki
á málum sem upp koma af festu, að þeir ættu kost á ráðgjöf og stuðningi innan skólans þegar á þarf að halda,
að vel hafi tekist til við að innleiða sjálfsmat skólans, að sérfræðiþjónusta sem skólunum stendur til boða bregðist
fljótt við óskum um aðstoð eða ráðgjöf, að kennarar þekki vel til skólastefnu Akureyrar og rúm 90% telja að
skólastefnan sé höfð að leiðarljósi við skipulag skólastarfs, að samstarfið við foreldra væri ánægjulegt, að
þeir fái hrós og algengast er að þeir fái það frá samkennurum og stjórnendum en síður frá foreldrum.
Ákveðinnar óvissu virðist gæta meðal kennara um það hvort þeir fái næg tækifæri til endur- og símenntunar en um tveir
þriðju þeirra sem tóku afstöðu svöruðu því játandi en um þriðjungur neitandi. Þá kom fram að um og yfir
90% kennara segja að þeir hafi aldrei orðið fyrir einelti af hálfu samkennara, stjórnanda eða foreldris og um 5% svara ekki. Þeir sem telja sig hafa
orðið fyrir einelti segja það helst af hálfu samkennara þótt hitt virðist líka til að kennarar upplifi einelti af hálfu stjórnanda
eða foreldris, segir í bókun skólanefndar. Nefndin fagnar því jákvæða viðhorfi sem niðurstöðurnar sýna að kennarar
hafi til starfs í leikskólum Akureyrarbæjar.
Könnunin á viðhorfum kennara í grunnskólum var gerð á vorönn 2008 og var þátttaka liðlega 60%. Að öllu samanteknu
virðast kennarar hafa jákvætt viðhorf til náms- og starfsaðstæðna í grunnskólum bæjarins þó að
jákvæðnin sé mismikil eftir því að hvaða þáttum skólastarfsins sjónum er beint. Af niðurstöðum könnunarinnar
má ráða að kennarar eru almennt sammála um að skólarnir séu góður vinnustaður, þar sé unnið faglegt og metnaðarfullt
starf og nemendum búnar hagstæðar aðstæður til náms og þroska. Almennt virðast kennarar hafa jákvæða afstöðu til atriða
er vísa beint til þeirra sjálfra, s.s. skólinn sem vinnustaður, nemendur, faglegt starf, samskipti við foreldra og kennsluhættir. Í öllum
þessum þáttum eru yfir 80% og allt upp í 95% kennara er svöruðu spurningalistanum jákvæðir. Hins vegar þegar fullyrðingar í
spurningalista vísa til þátta sem frekar eru á ábyrgð eða valdi annarra en kennara sjálfra, s.s. stjórnunar, vinnuaðstöðu, innri
stuðnings og stoðþjónustu er afstaða þeirra neikvæðari. Það er umhugsunarvert að fjórðungur kennara telur sig ekki eiga kost á
ráðgjöf og stuðningi innan skóla þegar þeir þurfa á að halda. Þrátt fyrir það segja yfir 80% að starfsandi í
skólanum sé góður, um 95% segjast vera hvetjandi í samskiptum við samstarfsmenn og svipað hlutfall segist sammála því að samstarf milli
kennara sé gott og traust ríki á milli samstarfsmanna. Um eða yfir þriðjungur kennara er ósammála því að húsnæði
henti vel starfsemi skólanna og að vinnuaðstaða þeirra sé góð. Marktækur munur er á afstöðu kennara milli skóla að
þessu leyti. Nú lýsa fleiri kennarar sig sammála því að kennarar axli sameiginlega ábyrgð gagnvart öllum nemendum í sínum
skóla en það gerðu í sambærilegri könnun árið 2006. Mun færri segja nú árið 2008 að þeir hafi oft fengið
hrós en sögðu það árið 2006. Þó að af niðurstöðum megi ráða að kennarar upplifa almennt ekki einelti í starfi
sér þess stað og frekar virðast kennarar upplifa nú að verða fyrir einelti en þeir gerðu árið 2006. Stór hópur kennara
kveðst hafa fundið til vanmáttarkenndar í starfi og kveðst hafa leitt hugann að því að skipta um starf eða starfsvettvang. Liðlega helmingur
kennara er sammála því að vel hafi tekist til við að innleiða aðferðir til sjálfsmats. Kennarar telja sig þekkja vel til skólastefnu
Akureyrarbæjar en fjórði hver kennari segist ósammála því að hún sé höfð að leiðarljósi við skipulag
skólastarfs. Fast að helmingur kennara kveðst ósammála því að bæjarfélagið leggi mikinn metnað í að byggja upp
góðan skóla, segir í bókun skólanefndar. Nendin samþykkti að fela fræðslustjóra og skólastjórum
grunnskólanna að fara vel yfir þá þætti sem mest óánægja virðist vera með meðal kennara og ræða leiðir til
úrbóta.
Könnunin á viðhorfi foreldra til skólastarfs í grunnskólum var gerð í lok foreldraviðtala á vormisseri 2008. Hver skóli sá um
framkvæmd könnunarinnar á sínum vettvangi en skóladeild annaðist samantekt svara af vefnum. Er niðurstöður lágu fyrir sá
skólaþróunarsvið HA um að vinna úr þeim. Viðhorf foreldra eru yfirleitt skýr og tala sínu máli en í einstaka tilfellum er
breytileiki eftir skóla eða aldri barnanna. Það er nokkuð afdráttarlaus skoðun foreldra að skólarnir séu góðir og 98% foreldra eru
ánægðir með skólana. Þetta er afar jákvætt viðhorf í garð grunnskóla Akureyrar. Rúm 95% svarenda segist sammála um
að börnum þeirra líði vel í skólanum. Ef miðað er við fyrri kannanir hefur þeim fjölgað sem telja að nemendum líði
vel og er það ánægjulegt. Almennt virðast foreldrar vera þess sinnis að agastefna í skólunum sé skýr og að tekið sé
á agamálum af festu, að skólinn komi til móts við þarfir barnsins, barnið fái viðeigandi þjónustu ef það lendir
í erfiðleikum, markvisst sé unnið að því að koma í veg fyrir einelti í skólanum, nemendur fái næga hreyfingu í
skólanum, að húsnæði skóla og skólalóðir hæfi vel starfi þeirra, að skólarnir hafi skólastefnu Akureyrarbæjar
að leiðarljósi og að samstarfið við kennarana sé ánægjulegt.
Í athugasemdum var hins vegar oftast minnst á mötuneyti skólanna sem stakan þátt. Tvenns konar athugasemdir komu fram, annars vegar þær sem
lúta að kostnaði mötuneytanna og hins vegar gæðum matarins, segir í bókun skólanefndar.
Nefndin fagnar því jákvæða viðhorfi sem niðurstöðurnar sýna að foreldrar hafi til starfs grunnskóla Akureyrar. Skólanefnd
samþykkti að fela fræðslustjóra að skoða ásamt skólastjórum leiðir til að mæta þeim athugasemdum sem oftast koma fyrir
í könnuninni.