"Þessi fækkun sem er að verða á Reyðarfirði og í strjálbýlinu, skýrir þessa fækkun á Íslandi og meira til. Þetta er óháð kreppunni og margt af þessu fólki er löngu farið en er nú að detta út af skrá." Þóroddur fjallaði m.a. um mannfjöldaþróun á Íslandi síðustu öldina og þær breytingar sem orðið hafa á fyrstu sex mánuðum þessa árs, í fyrirlestri í HA í gær.
Hann sagði að það hefði farið af stað mjög tilfinningaþrungin umræða um fólksflótta og hvaða áhrif það gæti haft á greiðslugetu þjóðarinnar. Jafnframt að umræðan um fólksflóttann hafi speglað mjög umræðuna sem hefur verið í þjóðfélaginu í töluvert langan tíma um hrunið á landsbyggðinni. Fyrir fáum árum hafi verið talað um að allir væru að fara af landsbyggðinni, Austfirðingar í útrýmingarhættu, tekjurnar hvergi lægri en á Norðvesturlandi og aðeins Akureyri með framtíð á Norðurlandi. "Þessi umræða sem kemur upp núna í kringum fólksflutningana, bergmálar fyrri umræðu um landsbyggðina."
Þóroddur segir að í augnablikinu sé ekki hægt að tala um stórkostlegt hrun en líklega muni þó fólki fækka hér. Aðeins færri útlendingar komi til landsins en fari frá því en Íslendingar skipti nánast engu máli, þar sem aðeins um 1% þeirra séu að breyta til. "Þessi mynd sem við fáum er því mjög ólík umræðunni."
Þóroddur segir að í versta falli fari mannfjöldi á Íslandi niður í það sem hann var áður en bankanir voru einkavæddir. Það muni verða tjón á ákveðnum sviðum af því að fólk fari en það séu líka tækifæri fyrir þá sem fara hvergi, eins og þá sem fara. "Það getur því verið að fólksflutningarnir hjálpi okkur að takast á við kreppuna á sama hátt og þegar bólan fór af stað og hingað streymdi inn fólk til að hjálpa okkur."