Flugsafnið leitar að sjálfboðaliðum og styrktaraðilum

Arngrímur Jóhannsson stjórnarformaður við Bíverinn, eina af flugvélum sínum á Flugsafninu.
Arngrímur Jóhannsson stjórnarformaður við Bíverinn, eina af flugvélum sínum á Flugsafninu.

Flugsafn Íslands á Akureyrarflugvelli hefur notið mikilla vinsælda í gegnum tíðina og á síðasta ári komu um 13.000 gestir í heimsókn í safnið. Flugsafnið glímir nú við fjárhagserfiðleika og hefur safnstjóri látið af störfum, a.m.k. tímabundið. Þá leitar safnið að sjálfboðaliðum til starfa sem og styrktaraðilum.

Það er þó enginn uppgjafartónn í forsvarsmönnum safnsins, sem ætla að halda starfseminni áfram af fullum krafti. "Róðurinn er þungur," sagði Arngrímur Jóhannsson stjórnarformaður í samtali við Vikudag. "Þegar við reistum þetta nýja húsnæði safnsins, var lögð fram greinargóð byggingaráætlun og samkvæmt safnalögum átti ríkið að taka þátt í byggingarkostnaði, sem það gerði. Á byggingartímanum hækkaði byggingarkostnaðurinn hins vegar töluvert og af þeim sökum stendur leiðinlegur biti í hálsinum á okkur. Þessi skuld lenti á öxlum fárra manna og það er það sem við erum að berjast við," sagði Arngrímur.

Um 13.000 gestir komu á safnið í fyrra sem fyrr segir og á þar meðal eru skólabörn, eldri borgarar og boðsgestir, sem ekki greiða aðgangseyri. Arngrímur segir að um helmingur gesta greiði því aðgang að safninu og að sú innkoma dugi ekki til að halda uppi föstum starfsmanni. Þá hefur Gestur Einar Jónasson safnstjóri látið af stöfum og hefur safnið fengið starfsmann tímabundið frá Akureyrarbæ.

Arngrímur segir að rekstrarkostnaður safnsins sé um 12 milljónir króna á ári en að endar nái ekki saman. Safnið sé í skuld við Landsbankann en að þar á bæ hafi menn sýnt ákveðinn skilning vegna fjárhagsstöðunnar. Þá sé einnig verið að leita eftir aðstoð frá Akureyrarbæ. "Ég auglýsi hér með eftir sjálfboðaliðum sem vilja leggja hönd á plóginn. Hér eru ótal verkefni fyrir handlagna menn, sem geta t.d. haldið á sög og hamri og þeir þurfa ekkert endilega að hafa komið nálægt flugvélum. Konur geta líka komið að málum og t.d. séð um bakkelsi. Ég stefni að því að halda fyrirlestur fljótlega hjá Félagi aldraðra, kynna þar flugsöguna, segja frá safninu og fara yfir þá stöðu sem við erum í. Fólk sem er um sjötugt, er rétt miðaldra, og getur haft ýmislegt fram að færa," segir Arngrímur, sem sjálfur er orðinn sjötugur og er enn að fljúga vélum sínum, sér til ánægju.

Stoltir yfir safninu

Arngrímur segir að ríkið styðji við rekstur safnsins árlega en að sú upphæð dugi þó ekki fyrir heilu stöðugildi. "Það er að koma ný safnastefna hjá ríkinu og verður hægt að sækja um styrki. Söfnin þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði en það er svo sérstök nefnd sem útdeilir fjármunum til þeirra. Við erum að vona að það verði okkur til blessunar."

Hann segir að gestir séu mjög ánægðir með safnið, þeir séu stoltir yfir þessu framtaki og það séu líka þeir sem að safninu standa. Flugsafnið hefur verið opið daglega alla sjö daga vikunnar en í vetur er stefnt að því að hafa opið að minnsta kosti þrjá daga í viku, föstudag, laugardag og sunnudag. Einng er hægt að koma með hópa utan þess tíma. "Það er kraftur í okkur en það sem samt óásættanlegt að vera með þennan skuldahala. Og vonandi kemur Gestur Einar aftur til starfa með vorinu."

Flugsafn Íslands var sett á stofn þann 1. maí árið 1999 og var fyrstu árin í minna húsnæði á flugvallarsvæðinu. Fyrstu skóflustunguna að núverandi húsnæði tók Sigrún Björk Jakobsdóttir þáverandi forseti bæjarstjórnar í september 2006. Stjórn safnsins skipa 9 manns en að auki leggja fjölmargir velunnarar starfseminni lið. Á safninu hafa verið skráðir um 2.500-3.000 munir, flugvélar, bækur og fleira. Arngrímur segir að reynt sé að halda flugvélum safnsins flughæfum og þær eru því ekki alltaf allar á safninu.

Alltaf að bæta við söguna

Þá hefur starf siglingafræðingsins fengið vægi á safninu, þar sem sett hefur verið upp siglingafræðistöð. Það sé því alltaf verið að reyna að bæta við söguna. Hann segir að flugsaga heimsins sé ekki nema rúmlega 100 ára gömul. Fyrsta vélflugið var árið 1903 en á Akureyri hófst flugsagan árið 1937. Flugfélag Íslands hóf einmitt starfsemi á Akureyri á sínum tíma. Fyrr á árinu gerði Icelandair Group styrktarsamning við Flugsafnið og fær safnið 4 milljónir króna á ári næstu þrjú árin. Arngrímur segir að þessi samningur skipti miklu máli fyrir safnið. Síðastliðinn vetur var leitað eftir stuðningi bæjarins við rekstur safnsins. Í bókun frá fundi stjórnar Akureyrarstofu í mars sl. kemur fram að stjórnin telji uppbyggingu og tilvist Flugsafns Íslands mjög jákvæða og mikilvæga fyrir ferðaþjónustu og menningarlíf í bænum, en ítrekaði þá skoðun sína að ríkisvaldið eigi að vera megin bakhjarl safns sem skráir flugsögu Íslands sem heild. Stjórnin ítrekaði jafnframt fyrri ákvörðun um að halda áfram árlegum stuðningi við safnið með sama hætti og verið hefur.

Nýjast