Í gær fimmtudag, voru tímamót á Sjúkrahúsinu á Akureyri, en þá voru liðin 40 ár frá því að fyrsta magaspeglunin var framkvæmd á spítalanum. Það var Gauti Arnþórsson, yfirlæknir á þeim tíma, sem framkvæmdi magaspeglunina þann 2. febrúar 1972. Í tilefni þessara tímamóta var opinn dagur á FSA í gærmorgun, með fyrirlestri og kynningu á speglunardeildinni, sem tók til starfa í nýjum húsakynnum árið 2007. Speglunardeildin var opin gestum og gangandi, þar sem m.a. gat að líta gömul tæki og tól, í bland við nýja tækni. Guðjón Kristjánsson yfirlæknir speglunardeiladar, kynnti sögu deildarinnar og Nick Cariglia forstöðulæknir Lyflækningadeildar, flutti fyrirlestur undir heitinu: Er hægt að framkvæma ERCP á landsbyggðinni? Hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum, sem unnu á deildinni á sínum tíma var boðið í heimsókn en sérstakir heiðursgestir á opna deginum voru hjónin Gauti Arnþórsson og Sólrún Sveinsdóttir, sem einnig starfaði við deildina. Nick forstöðulæknir, sem er frá New York í Bandaríkjunum, kom til starfa á Sjúkrahúsinu á Akureyri í ársbyrjun 1979, fyrir tilstilli Gauta og hann hefur starfað við deildina sl. 33 ár. Nick segir að árlega séu framkvæmdar um 1.500 speglanir á ári, maga- og ristilspeglanir og gall- og brisþræðingar. Að auki eru gerðar um 150 þvagblöðruspeglanir á ári. Nick segir að helsta breytingin á þessum áratugum, sé aukin og betri tækni. Við komu Nick, bættust við ristilspeglanir og ERCP en áður voru aðeins framkvæmdar magaspeglanir. Fyrsta ristilspeglunin var framkvæmd 20. maí 1980, með tæki sem gefið var af Lionsklúbbi Akureyrar. Fyrsta ERCP var framkvæmd 14. mars 1984. Lionessuklúbburinn Ösp á Akureyri gaf einnig ristilspeglunartæki á sínum tíma. Krabbamein í ristli og endaþarmi eru í dag orsök mikils heilsutjóns og eru þriðja algengasta dánarorsök af völdum krabbameina meðal Íslendinga.