Fjórðungur frestar læknisheimsókn af fjárhagsástæðum

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

Góð og öflug heilbrigðisþjónusta er einn af hornsteinum velferðarsamfélags, um það er ekki deilt. Við viljum að allir njóti traustrar heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag, búsetu og aldri. Engu að síður er staðan sú að kostnaður fólks vegna heilbrigðisþjónustu og lyfja er oft á tíðum mjög íþyngjandi, jafnvel óyfirstíganlegur.

Eining-Iðja lætur Gallup gera viðamikla könnun á hverju ári meðal félagsmanna sinna,  markmiðið er meðal annars að kanna kjör og viðhorf þeirra til ýmissa þátta.

Sláandi tölur

Í nýjustu könnun Gallup voru svarendur rúmlega 700 félagsmenn, nokkuð jöfn skipting á milli kynja, könnunin var gerð í nóvember á þessu ári. Þessi fjöldi gefur því nokkuð glögga mynd.

Þegar spurt var um heilbrigðismál, kemur í ljós að tæplega 40% sögðust hafa frestað því eða hætt við að fara til tannlæknis á síðustu 12 mánuðum af fjárhagsástæðum. Þetta er meira en þriðjungur.

23% þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðust hafa frestað því að fara til læknis af sömu ástæðum.  Sem sagt rétt um fjórðungur.

Og þegar spurt var um lyfjakaup, sögðust 14,5% hafa frestað kaupum á lyfjum.

Þetta eru sláandi tölur, sem byggðar eru á svörum félaga í Einingu-Iðju.

Við þetta bætist að rétt um fjórðungur svarenda sögðu að útgjöld til heilbrigðisþjónustu, tannlæknaþjónustu eða lyfjakaupa hefðu aukist á þessu 12 mánaða tímabili.

Stefnan er skýr

Í kjaraviðræðunum sem nú standa yfir, leggja launþegasamtökin ríka áherslu á góða og öfluga  heilbrigðisþjónustu. Á 43. þingi Alþýðusambands Íslands var samþykkt ítarleg stefna um heilbrigðisþjónustu. Í stefnunni er undirstrikað að efla verði grunnstoðir opinbera heilbrigðiskerfisins og tryggja að allir hafi aðgang að öflugri heilsugæslu í heimabyggð og nauðsynlegum lyfjum. Verkefni verkalýðshreyfingarinnar eru skýr og fastmótuð í þessum efnum.

Nokkur mikilvæg áhersluatriði:

-          Efla grunnstoðir opinbera heilbrigðiskerfisins og tryggja að íbúar hafi aðgang að öflugri heilsugæslu í heimabyggð.

-          Tryggja öllum landsmönnum aðgengi að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu.

-          og sett skýr mörk á milli opinberrar og einkarekinnar heilbrigðisþjónustu.

-          Draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga fyrir hverskonar heilbrigðisþjónustu og lyf.

-          Leggja sérstaka áherslu á aukið aðgengi og lækkun á kostnaði vegna sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu m.a. með því að efla þjónustuna innan heilsugæslunnar.

-          Efla upplýsingagjöf og félagslega ráðgjöf.

-          Stórefla vinnuvernd og forvarnir á vinnustöðum, koma í veg fyrir brottfall af vinnumarkaði, styðja við starfsendurhæfingu og endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys.

Sjálfsagður réttur

Landsmönnum hefur fjölgað en opinber framlög til heilbrigðisþjónustu hafa ekki fylgt þeirri þróun. Heilbrigðiskerfið hefur á mörgum sviðum verið fjársvelt og undirmannað. Við þekkjum öll umræðuna um biðlista, svo dæmi sé tekið. Víða um land hefur verið dregið úr þjónustu og sjúklingar þurfa að ferðast um langan veg með tilheyrandi kostnaði og tekjutapi.

Afleiðingin er að fólk neyðist til að neita sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og frestar því að fara til læknis, eins og könnun Gallup sýnir glögglega.

Á hátíðarstundum kennum við Ísland við velferðarríki. Í slíku velferðarríki hlýtur að þykja sjálfsagt að allir þegnar landsins njóti jafns aðgangs að öflugri heilbrigðisþjónustu án tillits til búsetu eða efnahags.

Því miður er það ekki þannig í dag. Tölurnar tala sínu máli.

-Höfundur eru formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast