Jón Þorvaldur Heiðarsson skrifar
Nú er áætlað að gerð Vaðlaheiðarganga kosti 10,4 milljarða kr. Án virðisaukaskatts er þessi upphæð 8,3 milljarðar kr. Það er væntanlega upphæðin sem rekstrarfélagið þarf að punga út en virðisaukaskattur ætti að fást endurgreiddur af stofnkostnaði ef virðisaukaskattur verður á veggjaldinu. Það var fyrirkomulagið í Hvalfirði. Þetta er hærri upphæð en undirritaður bjóst við en skýringin er sögð vera sú að göngin verði víðari en áður var miðað við eða 9,5m í þvermál. Verða göngin því víðari en Hvalfjarðargöng. Íslendingar hafa tekið mið af norskum stöðlum í jarðgangagerð og nýlega hertu Norðmenn sína staðla og hugsa nú jarðgöng til lengri tíma en áður. Kröfur um öryggisbúnað hafa einnig verið hertar.
Ekki hefur komið fram hvort gjaldtökubúnaður sé hluti af 10,4 milljörðunum en vegtengingar að göngunum eru innifaldar í upphæðinni. Vegtengingar eru ekki miklar en kosta nokkur hundruð Mkr. Þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð þurfti að fara í mikla vegagerð til að tengja göngin. Það kostaði yfir 900 Mkr þá eða upp undir 2 milljarðar kr á verðlagi nú í upphafi árs 2011. Ríkið kostaði alfarið þessa vegagerð, kostnaður við hana var ekki greiddur með tekjum af veggjaldinu. Hér er gengið út frá því að 10,4 milljarðar, þ.e. 8,3 án vsk, sé stofnkostnaðurinn sem veggjaldið þarf að standa undir og gjaldtökubúnaður sé þar innifalinn.
Hversu mikið það kostar að gera göngin er einn af stærstu óvissuþáttunum í verkefninu. Þrátt fyrir að áætlað sé að kostnaðurinn verði 8,3 milljarðar þá gæti hann bæði orðið nokkru hærri eða nokkru lægri. Eftir útboð skýrist þetta betur. Allir vona að verktakar komi með hagstæð tilboð í verkið, það eru meiri líkur á lágum tilboðum nú í ládeyðunni en í þensluástandi. Auk þess er mjög stutt í ýmsa þjónustu og aðföng þar sem merihluti ganganna verður grafinn við bæjardyr Akureyrar. Hins vegar verður nokkur óvissa um endanlegan kostnað þrátt fyrir að búið verði að semja við verktaka. Ef aðstæður verða verri en ráð var fyrir gert (t.d. vatnsagi) verður verktakanum borgað meira í samræmi við samning.
Síðan í desember 2010 hefur legið fyrir að lánið sem rekstrarfélagið þarf að taka til að gera göngin verður á ríkiskjörum. Ríkið mun afla fjár á skuldabréfamarkaði og lána félaginu eða útfært á einhvern hliðstæðan hátt. Félagið sem mun gera göngin er nýstofnað og heitir Vaðlaheiðargöng hf. og er í meirihlutaeigu ríkisins. Vaðlaheiðargöng hf. endurgreiða síðan ríkinu lánið með innheimtu veggjalda. Þar sem lánið er ríkistryggt mun það bera svipaða vexti og á öðrum ríkisskuldabréfum svo sem skuldabréfum Íbúðalánasjóðs. Lesendur geta auðveldlega skoða hver ávöxtunarkrafan er á ríkisskuldabréfum á bond.is. Þegar þetta er skrifað eru vextir á bréfum til 33 ára 3,19% (HFF150644), vextir á bréfum til 23 ára 3,15% (HFF150434) og bréfum til 13 ára 2,43% (HFF150224). Ef gert er ráð fyrir að ríkið láni beint inn í félagið, án álags, þá er líklegt að meðavextir á því láni verði eitthvað svipaðir og á núverandi 23 ára bréfum eða um 3,15%.
Nú er gert ráð fyrir að göngin verði gerð á þremur árum. Skuld Vaðlaheiðarganga hf. við ríkið mun hlaðast upp jafnt og þétt á þessum tíma og því verður til fjármagnskostnaður á framkvæmdatíma. Ef skuldin vex línulega á þessum þremur árum þá verður vaxtakostnaður á framkvæmdatíma um 4,9% af stofnkostnaði eða um 410 Mkr. Skuldin verður þó til eitthvað fyrr en þetta og því er hér gert ráð fyrir að vaxtakostnaður á framkvæmdatíma verði 500 Mkr. Stofnkostnaður við göngin auk fjármagnskostnaðar á framkvæmdatíma gæti þá orðið um 8,8 milljarðar kr.
Á fyrsta ári má því búast við að vaxtakostnaður af láninu verði um 277 Mkr miðað við fyrrgreindar forsendur. Í grein þrjú var sett fram að líklegt væri að tekjur á fyrsta ári yrðu 357 Mkr. Þegar búið er að borga vextina á fyrsta ári er því líklegt að eftir verði 80 Mkr.
Umfjöllun FÍB:
Höfundur er lektor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur á RHA.