Fjölskylduhjálpin leitar að nýju húsnæði og verkefnastjóra

Fjölskylduhjálp Íslands hefur rekið starfsstöð að Freyjunesi 4 á Akureyri frá því um miðjan nóvember sl. og hefur mikill fjöldi fólks fengið matarúthlutanir frá þeim tíma. Fjölskylduhjálpin er að missa húsnæðið í Freyjunesi en síðasta matarúthlutunin þar verður næsta miðvikudag, 13. apríl. Samtökin eru farin að leita að nýju húsnæði á Akureyri, því þörfin er enn fyrir hendi, að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur hjá Fjölskylduhjálp Íslands.  

Þá eru samtökin jafnframt að leita að sjálfboðaliða til að taka að sér verkefnastjórn á Akureyri, í stað Gerðar Jónsdóttur, sem stýrt hefur starfinu á Akureyri frá upphafi. Upphaflega var um tilraunaverkefni að ræða á Akureyri til sex mánaða en þörfin er enn það brýn að ákveðið var reyna að halda starfseminni áfram, svo framarlega að húsnæði fáist. Alls voru matarúthlutanir á Akureyri frá opnun og fram að jólum um 880 talsins og í vikunni fengu um 70 fjölskyldur aðstoð. Ásgerður Jóna segir að um sé að ræða öryrkja, aldraða og fólk á atvinnuleysisbótum. "Það stendur ekki á okkur að halda áfram, svo framarlega að við fáum sjálfboðaliða, karl eða konu, til að taka að sér verkefnastjórn og húsnæði til að reka starfsemina í," sagði Ásgerður Jóna.

Nýjast