Að loknu hindrunarhlaupinu tekur við svokölluð Vasaljósganga á vegum Skíðafélags Akureyrar, en þá verða öll ljós í Hlíðarfjalli slökkt og verður eina lýsingin kertaljós sem raðað hefur verður meðfram göngubrautinni, sem og höfuðljós þátttakenda. Þátttaka er ókeypis og öllum opin og boðið upp á heitt kakó og vöfflur á eftir. Veitt eru þátttakendaverðlaun sem og verðlaun fyrir besta/frumlegasta ljósabúnaðinn. Listrænir hæfileikar yfirkokks veitingarstaðarins 1862 Nordic Bistro í Menningarhúsinu Hofi fá að njóta sín á óvenjulegan máta á föstudaginn kl. 16 þegar hann sker út ísskúlptúr. Á föstudaginn kl. 20 verður snjósleðaspyrna á Leirutjörn við Skautahöllina þar sem hestöflin fá að njóta sín í botn og ef veður leyfir verður kl. 12 á laugardaginn mótorcrosskeppni á ís á Leirutjörn.
Meðal annarra stórviðburða hátíðarinnar er hin árlega Vetrarsportsýning EY-LÍV í Boganum sem er opin laugardag og sunnudag og er enginn aðgangseyrir. Þar eru helstu söluaðilar vetraríþróttabúnaðar samankomnir og sýna nýjustu græjurnar í vetrarsporti. Undanfarin ár hefur markhópurinn verið vélsleða- og jeppafólk en í ár er sýningin með mun meiri breidd þar sem skíða-, bretta og göngufólk getur fundið ýmislegt við sitt hæfi.
Þessa viðburði og fjölmarga fleiri er að finna á vetrarhátíðinni Éljagangur en allar nánari upplýsingar um hátíðina er að finna á heimasíðunni http://vikudagur.is/www.eljagangur.is - hátíðin er einnig að finna á Facebook undir facebook.com/eljagangur. Skipuleggjendur hátíðarinnar eru: Hlíðarfjall, AFE, EY-LÍV og Akureyrarstofa.