Fjarnám í hættu ef ekki fæst fjármagn

Fyrir utan Háskólann á Akureyri að lokinni athöfn í gær. Mynd: UNAK
Fyrir utan Háskólann á Akureyri að lokinni athöfn í gær. Mynd: UNAK

Í gær laugardag voru 371 kandídatar brautskráðir á Háskólahátíð Háskólans á Akureyri í blíðskapar veðri. Athöfnin fór fram í þriðja sinn í glæsilegum húsakynnum skólans. Herra Stewart Wheeler, sendiherra Kanada á Íslandi var heiðursgestur á brautskráningu skólans og gaf hann kandídötum góð heilræði í veganesti. Birgir Marteinsson, kandídat í lögfræði ML, flutti ávarp fyrir hönd þeirra sem útskrifuðust í dag.

Háskólaárið 2015-2016 stunduðu yfir 1800 nemendur nám á þremur fræðasviðum við Háskólann á Akureyri. Skipting kandídata eftir fræðasviðum er eftirfarandi:

  • Heilbrigðisvísindasvið: 97
  • Hug- og félagsvísindasvið: 157
  • Viðskipta- og raunvísindasvið: 117

Konur eru í miklum meiri hluta þeirra sem brautskráðust eða 301 á móti 70 körlum.

Hér má sjá nafnalista brautskráningarnema 11. júní 2016.

Háskólahátíðin hófst á ávarpi Eyjólfs Guðmundssonar rektors, þar fjallaði hann meðal annars um það umhverfi sem háskólar á Íslandi standa frammi fyrir. „Það skýtur skökku við að á meðan flestar þjóðir heims eru að byggja upp háskóla sína hefur íslenska háskólakerfið búið við verulegan fjárskort. Sá fjárskortur er nú fyrirsjáanlegur að minnsta kosti fram til ársins 2021 í ljósi nýrrar fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar. Háskólakerfið er nauðsynleg forsenda þess að unnt verði að byggja upp þekkingarsamfélag á Íslandi, og slíkt þekkingarsamfélag verður að byggja á Íslandi öllu.“

Eyjólfur tók fjarnám Háskólans á Akureyri í dæmi um þær afleiðingar sem skortur á fjármagni til háskóla getur haft. „Sú forysta sem háskólinn hefur sýnt með því að bjóða nám sitt í fjarnámi og þannig gert landsmönnum öllum kleift að stunda háskólanám er í verulegri hættu ef ekki fæst aukið fjármagn inn í háskólakerfið. Námsframboð skólans í heild sinni er í hættu ef ekki fæst fjármagn til að tryggja núverandi rekstur skólans til lengri tíma.“

Til þess að forðast megi þær alvarlegu afleiðingar sem fylgja frekari fjárskorti í háskólakerfinu sagði Eyjólfur að þjóðin þurfi í sameiningu að ná eyrum stjórnvalda og tryggja að háskólarnir fái nægjanlegt fjármagn til rekstrar þannig að næstu árgangar og næstu kynslóðir hafi sama rétt til náms og þjóðin hefur haft.

Í ávarpinu fjallaði Eyjólfur einnig um stærsta verkefnið sem þjóðir heims standa frammi fyrir í dag, afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Hvergi eru áhrifin sýnilegri en einmitt hér á norðurslóðum. Hann sagði það verkefni kandídata að takast á við þessar afleiðingar í alþjóðlegu og íslensku samhengi. Eyjólfur nefndi jafnframt að Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, hefur með einstakri forystu sýnt fram á að besta leiðin til þess að takast á við áhrif loftslagsbreytinga sé samtal stjórnmála, hagsmunaðila, íbúa norðurslóða og vísindasamfélagsins alls. Hr. Ólafi hefur tekist, með einstakri elju og eldmóði, að byggja upp slíkan vettvang í formi Arctic Circle – hringborðsumræðu um málefni norðurslóða.

Háskólinn á Akureyri hefur verið virkur þátttakandi á Arctic Circle og hefur skólinn sérhæft sig á ákveðnum sviðum norðurslóðarannsókna enda er Háskólinn á Akureyri háskóli norðursins.

Í ávarpi til kandídata lagði rektor áherslu á að hægt sé að áorka ýmsu á innlendum og alþjóðlegum vettvangi ef þau beita sér af áræðni, með reynslu og þekkingu að leiðarljósi. Eyjólfur kvaddi kandídata með orðunum: „Stefnið ávallt þangað sem hjartað segir ykkur að fara en notið hyggjuvitið, færni ykkar og þekkingu til þess að nýta tækifærin sem bjóðast á ferðalaginu sjálfu!“

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur (grunnám) hlutu eftirtaldir:

  • Auðlindafræði – Inga Ósk Jónsdóttir
  • Félagsvísindi – Olga Katrín Olgeirsdóttir
  • Kennarafræði – Hrefna Hlín Sigurðardóttir
  • Hjúkrunarfræði – Tryggvi Hjörtur Oddsson og Sigríður Harpa Hauksdóttir
  • Iðjuþjálfunarfræði – Svava Arnardóttir
  • Lögfræði – Sveinn Blöndal
  • Viðskiptafræði – Sigurjóna Þórdís Ingvadóttir

 

Nýjast