Fjármálalæsi Jöfnun stöðu allra barna

Heiðrún Emilía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF.
Heiðrún Emilía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF.

Við teljum afar brýnt að jafna stöðu allra barna þannig ekkert barn fari upp úr grunnskóla án þess að búa yfir lágmarksþekkingu í fjármálalæsi ekki frekar en börn fara út í umferðina án þess að kunna umferðarreglurnar.

Skylda í sumum skólum, ekki kennt í öðrum

Börnin okkar verða fyrir sífelldri meiri samfélagspressu og hraðinn í samfélaginu verður sífellt meiri. Mikilvægt að kenna þeim meira um fjármál svo þau hafi betri tækifæri til að byggja upp heilbrigðan fjárhag. Við þekkjum öll hvað það getur verið auðvelt að misstiga sig á þessu sviði. Það sem virðist saklaus yfirdráttur í byrjun, eða lítið smálán, getur vaxið og erfitt getur verið að koma sér út úr fjármálavanda. Þó margt hafi verð vel gert, þá höfum við haft áhyggjur af því að nám í fjármálalæsi standi ekki öllum börnum til boða með nægilega skilgreindum og heilsteyptum hætti. Í sumum skólum er þetta skylda, í öðrum val, en í enn öðrum skóla er ekki boðið upp á þetta nám. Við höfum fyrst og fremst áhyggjur af þeim börnum sem ekki hafa stuðning foreldra og eru í þeim skólahverfum þar sem gefst ekki kostur á að læra um fjármál.

90% vilja hafa lært meira um fjármál í grunnskóla

Samkvæmt nýlegri könnun vildu 90% aðspurða hafa lært meira um fjármál í grunnskóla, en einungis 10% segjast hafa lært um fjármál í grunnskóla. Helmingur barna læra um fjármál hjá foreldrum sínum. Jafnvel þótt við gefum okkur það að allir forreldrar séu afar fær á þessu sviði, þá er ljóst að það er hinn helmingurinn sem ekki fær þessa kennslu heima fyrir. Hvað þá með þau börn sem hvorki fá kennsluna heima né í skóla?

Svikahætta á netinu

Í sömu könnun kemur fram að 43% læra um fjármál á netinu, meðan 13% telja að þau ættu að læra á netinu. Það er ekki einungis hætta á að börnin læri ekki rétta hluti á netinu, heldur ekki síður hætta á að þau verði fyrir svikum, enda er ljóst að svikahrappar verða sífellt klárari í svikaaðferðum sínum.

74% telja að það eigi að kenna fjármálalæsi í grunnskóla.

74% aðspurða telja að það eigi að kenna fjármálalæsi í grunnskóla og framhaldsskóla, en einungis 10% segjast hafa lært um fjármál í grunnskóla en 18% í framhaldsskóla. 90% segjast hafa viljað læra meira um fjármál í skóla. Nú tel ég að mun fleiri kennarar og skólar kenna eitthvað í fjármálalæsi í grunnskólum en þessi 10% svara til um, en það er ljóst að það verður að kenna fjármálalæsi með heildrænum og samræmdum hætti. Tryggja verður gott og aðgengilegt námsefni og það verður að styðja við kennara sem vilja kenna fjármálalæsi. SFF hefur á síðastliðnum árum gefið 17.000 bækur í grunn- og framhaldsskóla, og stutt við kennara sem þess óska.

Við teljum að við sem samfélag verðum að gera betur – og jafna stöðu allra barna á Íslandi og gera fjármálalæsi að skyldu í grunnskóla.

 


Athugasemdir

Nýjast