11.desember - 18.desember - Tbl 50
Fjármagn í hugmyndavinnu við 50 metra innilaug áætluð árið 2028
Ellert Örn Erlingsson forstöðumaður íþróttamála hjá Akureyrarbæ segir að í framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar sé gert ráð fyrir fjármagni árið 2028 til að fara í formlega vinnu við að skoða möguleika og hugmyndir um 50 metra innisundlaug á Akureyri. „Það verður spennandi og skemmtilegt verkefni,“ segir hann. Um tíðina hafi af og til verið umræður við og innan Akureyrarbæjar um hugmyndir um nýja 50 metra innisundlaug.
Talsverðar umræður hafa verið á Akureyri í kjölfar greina sem Dýrleif Skjóldal hefur skrifað undanfarið um skort á góðri aðstöðu fyrir þá sem æfa sund. Fram hefur komið í Vikublaðinu að bagalegt sé að æfa sund í útilaug yfir vetrartímann þegar allra veðra er von. Metnaðarfullir sundmenn hafi jafnvel í hyggju að flytja sig um set þar sem betri aðstaða er í boði.
Akureyrarbær gaf í október árið 2019 út skýrslu um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri til næstu 15 ára, eða til ársins 2034. Ellert segir að af þeim ellefu uppbyggingarverkefnum sem þar voru listuð upp sé tveimur lokið, fyrsta áfanga í aðstöðu Siglingaklúbbsins Nökkva og félagsaðstaða í Skautahöllinni. Tvö verkefni séu að nálgast lokametrana, þ.e. inniaðstaða fyrir golf að Jaðri og véla/þjónustuhús í Hlíðarfjalli. Þá séu tvö verkefni einnig komin talsvert vel af stað, þ.e. félagsaðstaða KA, stúka og gervigrasvöllur og hafist var handa við eitt verkefni nú í október, gervigrasvöll á félagssvæði Þórs.
Samtalið sífellt í gangi
„Það er fagnaðarefni að vera komin svona langt með alls 7 verkefni af 11 á fimm árum, það er bara framúrskarandi góður árangur hjá öllum hlutaeigandi aðilum,“ segir Ellert. Og bætir við að ljóst sé að þessar framkvæmdir eru og verði fyrirferðarmiklar í framkvæmdaáætlun bæjarins á meðan á þeim stendur, „og því þurfa önnur uppbyggingarverkefni á sviði íþróttamannvirkja að bíða þar til svigrúm myndast í framkvæmdaráætlun bæjarins.“
Ellert segir röð verkefna hafa tekið smá breytingum frá því uppbyggingarskýrslan kom út fyrir 5 árum, það sé eðlilegt þegar mörg stór verkefni í bland við minni eigi í hlut. „Þess vegna er líka erfitt að segja hvar hvert verkefni er nákvæmlega í röðinni eða hvort það verði einhverjar frekari breyting á verkefnum skýrslunnar. Samtalið við íþróttahreyfinguna er sífellt í gangi varðandi aðstöðumál og Akureyrarbær er ágætlega upplýstur um þarfir, vonir og væntingar til framtíðaruppbyggingar á íþróttaaðstöðu á Akureyri,“ segir hann.