Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í Optimar

Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar …
Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi Myndir Kaldbakur

Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé í hátæknifyrirtækinu Optimar International AS (Optimar) af þýska eignarhaldsfélaginu Franz Haniel & Cie. GmbH (Haniel). Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi.
Optimar hefur höfuðstöðvar í Ålesund á vesturströnd Noregs en er alþjóðlegt fyrirtæki með starfsstöðvar, auk Noregs, á Spáni, í Rúmeníu og Bandaríkjunum. Optimar er með viðskiptavini í meira en 30 löndum og er þekkt fyrir nýsköpun í vöruþróun og hágæða þjónustu. Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á rekstri Optimar sem mun áfram þjónusta viðskiptavini sína sem sjálfstætt fyrirtæki í samstæðu Kaldbaks ehf.
Fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf. er í eigu tveggja stofnenda Samherja hf. og fjölskyldna þeirra. Með fjárfestingu í Optimar leitast Kaldbakur við að styrkja stöðu sína sem fjárfestir í haftengdum iðnaði.

 Sjálfvirkt vinnsluborð fyrir flökun

„Optimar er traustur þjónustuaðili við sjávarútveginn á heimsvísu. Fyrirtækið býr yfir mikilli reynslu, þekkingu og viðskiptasamböndum. Við erum spennt fyrir þeim tækifærum sem þessi fjárfesting mun skapa, bæði fyrir Optimar og fyrir önnur fyrirtæki í okkar eigu,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Kaldbaks.

  Eiríkur S. Jóhannsson framkvæmdastjóri Kaldbaks 

Haniel festi kaup á Optimar á árinu 2017 og hefur frá þeim tíma stutt við þróun og uppbyggingu fyrirtækisins. „Kaldbakur er fullkominn samstarfsaðili Optimar á þessum tímapunkti og hefur skuldbundið sig til að nýta sína reynslu og sérþekkingu til að styðja við frekari vöxt fyrirtækisins til framtíðar. Við óskum starfsfólki Kaldbaks og Optimar innilega til hamingju með að hafa innsiglað samstarfið,“ segir Thessa von Hülsen, fjárfestingastjóri í eignastýringu hjá Haniel.

Um Optimar

Optimar er leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi. Fyrir utan höfuðstöðvar og framleiðsluaðstöðu á vesturströnd Noregs er Optimar með starfsstöðvar á Spáni, í Rúmeníu og Bandaríkjunum. Hjá fyrirtækinu starfa 260 manns við hönnun og vöruþróun, framleiðslu, uppsetningu og sölu. Í krafti stöðu sinnar í hjarta norska sjávarklasans, í mikilli nálægð við viðskiptavini sína og samstarfsaðila, hefur fyrirtækið orðaði leiðandi í nýsköpun og vöruþróun.

Um fjárfestingafélagið Kaldbakur ehf.

Kaldbakur ehf. er sjálfstætt fjárfestingafélag í eigu tveggja stofnenda Samherja hf. og fjölskyldna þeirra. Á árinu 2022 tók félagið yfir eignir sem Samherji hafði eignast í gegnum árin en voru ekki hluti af kjarnastarfsemi fyrirtækisins. Meginmarkmið Kaldbaks er að skapa langtímaverðmæti með virku eignarhaldi. Kaldbakur státar af margþættum eignagrunni í atvinnugreinum sem spanna sjávarútveg, orku, matvælavinnslu og smásöluiðnað sem endurspeglar stefnu um fjölbreytni. Meðal eigna Kaldbaks eru hlutabréf í REM Offshore AS, Högum hf., Slippnum Akureyri ehf., Jarðborunum hf., Sjóvá hf. og Bergfrost P/F.

Um Haniel

Franz Haniel & Cie. GmbH (Haniel) stýrir eignasafni sjálfstæðra fyrirtækja með það að markmiði að skapa verðmæti fyrir framtíðarkynslóðir. Eignasafn Haniel samanstendur í dag af tíu fjárfestingum. Um er að ræða fyrirtækin BauWatch, BekaertDeslee, CWS Cleanrooms, CWS Fire Safety, CWS Hygiene, CWS Workwear, Emma – The Sleep Company, KMK kinderzimmer, ROVEMA og TAKKT. Árið 2022 störfuðu 21.500 manns hjá Haniel Group og velta fyrirtækisins nam 4,2 milljörðum evra. Fyrirtækið er alfarið í fjölskyldueigu og hefur haft höfuðstöðvar í Duisburg frá stofnun árið 1756.

  Optimar frystar fyrir vinnslu um borð í togurum.


Athugasemdir

Nýjast