Fiskey stefnir í þrot takist ekki að safna nýju hlutafé
Arnar segir að lítil seiðaframleiðsla undanfari ára hafi haft slæm áhrif á rekstur félagsins. Hátt seiðaverð og lækkun rekstrarkostnaðar hefur þó gert það að verkum að lítið hefur vantað uppá að tekjur félagsins stæðu undir rekstrarkostnaði. Íslandsbanki hefur veitt félaginu það fé sem uppá hefur vantað í formi skammtímaláns. Eldisstöð félagsins í Þorlákshöfn var seld á síðastliðnu ári fyrir tæpar 120 milljónir króna og fór sú upphæði til niðurgreiðslu langtímalána hjá Íslandsbanka. Á árinu 2010 voru seld rúm 180 þúsund seiði. Tekjur félagsins voru rúmar 103 milljónir króna og rekstrargjöld voru rúmar 106 milljónir króna.
Lítil framleiðsla var úr fyrstu tveimur framleiðsluhópum lúðuseiða á þessu ári og segir Arnar því hafa verið nauðsynlegt að ná góðum árangri úr þriðja og síðasta framleiðsluhópi þessa árs. „En því miður hefur það ekki tekist og útlit er fyrir að heildar framleiðsla ársins verði um eða undir 50 þúsund seiði og sú framleiðsla stendur ekki undir rekstri félagsins," segir hann. Allt lausafé félagsins er upp urið og Íslandsbanki hefur lýst því yfir að ekki verði lánað meira til félagsins. Það er því ljóst að rekstur þess er komin í þrot takist ekki að fjármagna hann með nýju hlutafé á næstu vikum.
Félagið var stofnað árið 1987 og hefur framleitt rúmlega 4,5 milljónir lúðuseiða frá upphafi. Aðeins lítill hluti þeirra hefur farið í framleiðslu hér á landi en þau hafa verið flutt til Kanada, Skotlands, Kína, Svíþjóðar, Færeyja og Noregs. Langmest hefur verið flutt út til Noregs eða nálægt 4 milljón seiði. Þar eru nú framleidd hátt í 2000 tonn af eldislúðu og fullvíst má telja að lúðueldi í Noregi væri mun skemmra á veg komið ef ekki hefði komið til innflutningur lúðuseiða frá Íslandi.
Frá stofnun félagsins hafa hluthafar lagt félaginu til rúmlega 1,1 milljarð í hlutafé. Ef miðað er við vísitölu neysluverðs og lánskjaravísitölu er uppreiknað núvirði hlutafjár 2,2 milljarðar króna. Þar að auki hefur Fiskey fengið 275 milljónir króna í styrki frá opinberum aðilum, sem uppreiknað að núvirði eru tæplega 580 milljónir króna. Arnar segir að uppreiknaðar tekjur séu hátt í 3 milljarðar á s.l. 14 árum en fyrstu sölutekjur félagsins voru á árinu 1998. "Þetta er mjög merkilegt rannsókna- og þróunarverkefni sem hefur verið atvinnuskapandi og skilað sér í mikilli þekkingu í eldi sjávarfiska."