Vaðlaheiðargöngum fylgir rekstrarkostnaður. Skipta má þeim rekstrarkostnaði í tvennt. Annars vegar er almennur rekstrarkostnaður sem er í öllum jarðgöngum. Það er svo sem rafmagn, malbikun á einhverra ára fresti, viðhald og þess háttar. Hins vegar er kostnaður við að taka veggjald.
Á margan hátt er eðlilegt að almennur rekstur sé á hendi Vegagerðarinnar eins og allstaðar í vegakerfinu (þó ekki í Hvalfjarðargöngum). Vegagerðin sparar kostnað á móti á Víkurskarði, þar verður ekki ástæða til að halda úti eins mikilli þjónustu og áður. Umferð þar verður ekki nema brot af núverandi umferð og harla lítil á veturna. Jafnframt ætti vegslit á leiðinni að verða minna. Hugsunin er þá sú að veggjaldið eigi að standa undir stofnkostnaði Vaðlaheiðarganga en almennur rekstrarkostnaður verði á hendi ríkisins eins og annarsstaðar. Þessi almenni rekstrarkostnaður er líklega um 20-25 Mkr á ári. Þessi upphæð er sett fram með hliðsjón af rekstrarkostnaði í Fáskrúðsfjarðargöngum og tillit tekið til þess að þau eru styttri og umferðarminni en Vaðlaheiðargöng verða.
Öðru máli gegnir um kostnaðinn við að innheimta veggjaldið. Eðlilegt er að hann verði greiddur af veggjaldinu. Þarna er fyrst og fremst um að ræða kostnað við innheimtuna en einnig umsýslu við reksturinn. Höfundur hefur litlar forsendur til að áætla árlegan kostnað við þetta. Mönnuð gjaldstöð kostar líklega um 30 Mkr á ári. Vonandi verður gjaldstöðin hins vegar mannlaus. Ýmsar leiðir eru til í þeim efnum og í töluverðri gerjun. Ein einföld leið sem ýmsir kannast við frá Norðurlöndum (svo sem um Eyrarsundsbrúna) er að ekið er að slá, korti (debetkorti, greiðslukorti eða sérstöku Vaðlaheiðarkorti) stungið í lesara, sláin lyftist upp og ekið er áfram. Svipað þekkist jafnvel á einstaka bílastæðum á Íslandi.
Vonandi verður hægt að halda kostnaði við gjaldheimtu og umsýslu fyrir neðan 20 Mkr á ári en hér er rennt nokkuð blint í sjóinn með það.
Í grein þrjú og fjögur var rökstutt að líklega yrðu tekjurnar á fyrsta ári 357 Mkr en greiða yrði 277 Mkr í vexti. Þá yrðu eftir um 80 Mkr. Af þeirri upphæð þarf að greiða rekstrarkostnað. Hér er miðað við að hann verði eingöngu vegna gjaldtöku og umsýslu. Ef hann verður 20 Mkr standa eftir 60 Mkr. Ef Vegagerðin sér um almennan rekstur þá má nota alla þessa upphæð til að greiða niður lánið. Samsvarandi tölur fyrir annað ár eru 379 Mkr í tekjur, 275 Mkr í vexti, 20 Mkr í rekstrarkostnað og þá standa eftir 84 Mkr til að greiða niður lánið. Smám saman eykst endurgreiðslan af láninu, bæði vegna þess að gert er ráð fyrir að umferðin aukist um 2% á ári sem og að vaxtakostnaður af láninu lækkar smám saman í samræmi við endurgreiðslur af því. Með þessum forsendum greiðist lánið upp á 30 árum.
Umfjöllun FÍB:
Höfundur er lektor við Háskólann á Akureyri og sérfræðingur á RHA.