Fimm fá aðgengisvottun
Hótel KEA, Menningarhúsið Hof , Hótel Natur, Ferðaþjónustan Skjaldarvík og Ferðaþjónustan Öngulstöðum verður afhent fyrst allra á Norðurlandi vottun aðgengis á Hótel KEA föstudaginn 3.júní kl.12.00. Þessir aðilar hafa látið taka út mannvirki sín með tilliti til aðgengis fyrir fatlaða og birta upplýsingarnar á veraldarvefnum fyrir notendur.
Á Íslandi starfar fyrirtækið Aðgengi sem sérhæfir sig í slíkum úttektum og veitir fyrirtækjum, stofnunum, sveitafélögum og öðrum aðilum vottun um aðgengi, eftir danskri fyrirmynd, og er rekið af Hörpu Cilia Ingólfsdóttur. Fyrirtækið hefur verið starfrækt frá árinu 2005 og hefur á þeim tíma tekið út fjölda mannvirkja, bæði á byggingarstigi sem og eldri byggingar, með aðgengi fatlaðra í huga.„Þegar talað er um aðgengi fatlaðra kemur yfirleitt upp í hugann hjá fólki mynd af manneskju í
hjólastól. Skilgreining á fötlun getur engu að síður átt við handa- eða gönguskerta, ofnæmis- og astmaveika, fólk með
lestrarörðugleika og sjónskerta sem og þroskahamlaða og heyrnaskerta,“ segir Harpa, „Flest öll okkar verða fyrir því einhvern tímann
á ævinni að þurfa á sérstöku aðgengi á að halda en um 60.000 Íslendingar eru nú þegar í þessum
markhópi frá degi til dags. Talan er svo mun hærri þegar horft er til Evrópu en talið er að um 100 milljónir manna í Evrópu hafi not af
upplýsingum um aðgengi.“
Aðgangur almennings að þessum upplýsingum er varðar Ísland hefur ekki verið til staðar fyrr en nú. Á heimasíðu Góðs
aðgengis: www.accessiceland.is eru upplýsingar um öll sjö merkin og leitarvél sem auðveldar almenningi aðgang
að upplýsingum um vottaða staði og hvernig aðgengið er á þessum stöðum. Allar grunnupplýsingarnar sem skráðar eru í
Aðgengismerkjakerfið er einnig að finna á ensku, dönsku, sænsku og þýsku.
Slíkar vefsíður auðvelda skipulagningu bæði á hversdagslegum ferðum sem og ferðalögum fatlaðra.
„Hér áður fyrr fór mikill tími í að skipuleggja þessar ferðir en með nútíma tækni og vottun verður þetta
miklu einfaldara og fljótlegra fyrir almenning og skipuleggjendur að notast við,“ segir Harpa. „Þetta er einnig stór markhópur fyrir
ferðaþjónustuaðila að ná til, eins og hótel, veitingahús, ferðaskipuleggjendur og bílaleigur til að mynda, sem fyrirtæki hafa
kannski ekki gert sér hugmyndir um fyrr en nú.“
Nú þegar hafa nokkur hótel og veitingastaðir látið taka út aðgengi sitt og fá vottun á næstunni ásamt um 20
náttúruperlum á Suðurlandi og var sveitarfélagið Garður fyrst til fá vottun fyrir skóla, söfn og fleiri staði sem tilheyra
sveitarfélaginu. „Þessi úttekt skapar tímamót fyrir fatlaða og almenning yfir höfuð sem mun vonandi koma til með að vera byrjunin á
því að önnur sveitafélög taki af skarið og fari sömu leið,“ segir Harpa.
Á næstu vikum mun Harpa fara hringinn í kringum landið til að vekja athygli á mikilvægi aðgengis fatlaðra og Aðgengismerkjakerfinu. Til liðs við hana hafa gengið Diddú söngkona, Edda Heiðrún Bachman leikkona, Helgi Hjörvar alþingismaður, Árni Tryggvason leikari og sjómaður, Jónína Leósdóttir rithöfundur, Eyþór Ingi tónlistamaður og söngvari og Daníel Ólafsson framhaldsskólanemi. Öll munu þau prýða veggspjald og upplýsingabækling sem útskýrir mikilvægi aðgengis fyrir hóp sem þau tilheyra og er þessu átaki ætlað að beina sjónum að þessu aðkallandi málefni og þeim stóra hóp sem geta nýtt sér Aðgengismerkjakerfið á hverjum degi.