Fetaði nærri því í fótspor Haraldar Bessasonar

Kristín Margrét Jóhannsdóttir er lektor við Kennaradeild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og brautarstjóri grunnnáms Kennaradeildar. Hún hefur starfað við háskólann síðan 2015.

Kristín er málfræðingur með sérstaka áherslu á merkingarfræði íslensku. „Á síðari árum hef ég mest fengist við rannsóknir á vesturíslensku sem enn er töluð í Norður-Ameríku en er því miður að deyja út. Þar hafa rannsóknaráherslur mínar sérstaklega verið á því hvernig Vestur-Íslendingar tjá tíma; hvernig þeir nota nútíð og þátíð, lokið horf og ólokið, hvernig þeir drífa frásögn áfram í tíma og hvernig þeir nota viðtengingarhátt,“ segir Kristín.

Í kennslu fæst Kristín við ýmislegt sem kemur að tungumálum og þá sérstaklega kennslufræði íslensku og ensku. „Nú á vormisseri hef ég svo verið að leysa af í íslensku sem öðru máli og það hefur verið mjög áhugavert.“

Hvað ert þú að fást við þessa dagana og hvað er fram undan hjá þér?

„Í vetur hef ég aðeins verið að hvíla mig frá formlegu málfræðinni og hef í staðinn verið að skoða viðhorf Vestur-Íslendinga til íslensku tungunnar og hvaða hlutverki tungumálið gegndi í sjálfsmynd Vestur-Íslendinga í upphafi vesturfaranna. Mig langar að halda áfram með það og skoða hvort og þá hvernig þetta viðhorf breyttist eftir því sem á leið. Að auki hef ég ásamt Finni Friðrikssyni verið að skoða ritun nýnema í háskóla.“

Kristín er fædd og uppalin á Akureyri og segir stundum sjálf að hún hafi meira og minna alist upp í Hlíðarfjalli. „Ég byrjaði að æfa skíði átta ára og varð margfaldur Akureyrarmeistari í svigi, stórsvigi og skíðagöngu og bikarameistari í alpagreinum en aldrei Andrésarmeistari eða Íslandsmeistari. Ég er enn pínu svekkt yfir því. Ég lauk B.A.-prófi í íslensku og M.A-prófi í íslenskri málfræði frá HÍ. Þegar ég var 29 ára fékk ég svo stöðu sem íslenskukennari við íslenskudeild Manitóbaháskóla í Kanada þar sem ég vann í fjögur ár. Mér fannst ótrúlega gaman að kenna í háskóla svo ég fór í doktorsnám í málvísindum við Háskólann í Bresku Kólumbíu í Vancouver þar sem ég var svo næstu árin við nám. Ég tók reyndar tveggja ára hlé frá námi til þess að vinna sem yfirmaður tungumála við Vetrarólympíuleikana í Vancouver. Það var stórkostlegt. Eftir tólf ár í Kanada flutti ég heim og vann fyrst í tvö ár við máltækniverkefni á vegum Evrópusambandsins, var stundakennari við HÍ og íslenskukennari við Menntaskólann við Sund áður en ég kom aftur heim til Akureyrar,“ segir Kristín.

Það er gaman frá því að segja að í Winnipeg hafi Kristín nokkurn veginn fetað í fótspor Haraldar Bessasonar, fyrsta rektor Háskólans á Akureyri, sem lengi var prófessor við íslenskudeild Manitóbaháskóla. „Ég grínaðist með það að ég myndi svo elta hann í Háskólann á Akureyri og það gerðist. En takið eftir að Haraldur var prófessor og rektor við HA en ég var bara aðjúnkt og nú lektor. Svo ég á enn nokkuð í land til að ná honum. Annars langaði mig alltaf að flytja aftur til Akureyrar því hér er fjölskylda mín og hér er Hlíðarfjall,“ segir Kristín að lokum.

Til gamans

Uppáhalds lagið mitt er: Ég er Bítlaaðdáandi og það er ekki hægt að velja eitt lag með Bítlunum. Ég yrði að minnsta kosti að fá að velja lög á eina tvöfalda plötu...eða þrefalda.

Hvað er best við HA?

Vinnan, vinnuandinn, staðsetningin og útsýnið af O-gangi.

Vissir þú að [3 staðreyndir um þig]

  1. Hér um bil öll mín áhugamál snúast um íþróttir. Ég stunda skíði, skíðagöngu, fer á snjóþrúgur og spila íshokkí og bandý. Á sumrin geng ég á fjöll. Í gegnum tíðina hef ég líka spilað fótbolta, stundað klettaklifur og spilað veggtennis. Ef ég myndi fótbrjóta mig gengi ég af göflunum og maðurinn minn myndi örugglega þurfa að flytja út...alla vega á meðan mér batnaði.
  2. Ég er búin að halda með Arsenal síðan ég var níu eða tíu ára af því að þeir eru í langflottustu búningunum. Ég krossa fingur og vona að þetta sé árið okkar.
  3. Ég er algjör kattakona og lít á köttinn minn hann Tomma sem barnið mitt.

Lokaorð/heilræði:

Tell me and I forget. Teach me and I remember. Involve me and I learn. -Benjamin Franklin

 


Athugasemdir

Nýjast