Ferskur fiskur unnin á Dalvík í dag - kominn á markað erlendis í fyrramálið

Starfsfólkið í landvinnslu Samherja hf. á Dalvík, alls um 120 manns, tók daginn snemma og var mætt til vinnu í frystihúsinu kl. 04.00 í morgun. Þá hófst vinnsla á ferskum fiski sem þýski togarinn Baldvin NC landaði á Dalvík en skipið var við veiðar í Barentshafi. Aflinn var tæp 200 tonn og uppistaðan þorskur.  

Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja á Dalvík segir að fiskurinn verði fluttur út með flugi í kvöld og að hann verði kominn á markað í Frakklandi í fyrramálið. Markaður fyrir ferskan fisk er sérstaklega góður í Frakklandi í páskavikunni, að sögn Gests. Togarinn Baldvin NC, er í eigu Deutsche Fishfang Union GmbH (DFFU), dótturfélags Samherja í Þýskalandi. Togarinn hét áður Baldvin Þorsteinsson EA og var í eigu Samherja.

Nýjast