Ferðaskrifstofa Akureyrar í sókn á ráðstefnu- og fundamarkaði

Nú um áramótin tók ný innanlandsdeild Ferðaskrifstofu Akureyrar formlega til starfa og mun megin hlutverk hennar verða skipulag á ráðstefnum, fundum og hvataferðum á Akureyri og Norðausturlandi. Hrafnhildur E. Karlsdóttir stýrir þessu verkefni hjá FA og hóf hún störf um áramótin.  

Hrafnhildur hefur um árabil gegnt stjórnunarstöðum hjá Keahótelum ehf. og  var einnig á sínum tíma forstöðumaður Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna á Akureyri. Fyrstu ráðstefnurnar á vegum innanlandsdeildar FA hafa þegar verið bókaðar á Akureyri á þessu ári og þar af eru stórar alþjóðlegar ráðstefnur. Hrafnhildur segir markmiðið að laða bæði stórar ráðstefnur sem minni fundi á svæðið, jafnt erlendis frá sem innanlands.

„Við byggjum á gömlum og rótgrónum grunni Ferðaskrifstofu Akureyrar sem hefur í gegnum áratugina skapað sér gott orð í þjónustu við viðskiptavini sína. Hér á svæðinu hafa opnast ný tækifæri á þessu sviði, fyrst og fremst með tilkomu menningarhússins Hofs og nýbyggingar Háskólans á Akureyri. Í báðum þessum húsum er mjög góð aðstaða til ráðstefnuhalds sem ekki hvað síst opnar okkur ný tækifæri hvað varðar stærri ráðstefnur og fundi. Nú er einnig að verða aukning í gistirými hér á Akureyri á næstu misserum og það, ásamt fjölbreyttri flóru í veitingastarfsemi, styrkir þann grunn sem við höfum til að sækja fram á ráðstefnusviðinu," segir Hrafnhildur.

Víðtæk þjónusta

Þjónusta Ferðaskrifstofu Akureyrar á þessu sviði felst í öllu skipulagi og utanumhaldi á fundum og ráðstefnum, svo sem bókunum á ráðstefnuaðstöðu, gistingu, veitingaaðstöðu, bókunum á ferðum til og frá svæðinu, skipulagi og þjónustu á ráðstefnustað, umsjón með skipulagi afþreyingarviðburða og öðru því sem ráðstefnuhaldarar óska.

„Við höfum samstarf við fjölda aðila hér á svæðinu í þessu verkefni og teljum okkur hafa mjög góðan valkost að bjóða viðskiptavinum okkar," segir Hrafnhildur.

Nýjast