Félag málmiðnaðarmanna Akureyri átti 70 ára afmæli 23. febrúar og samþykkti aðalfundurinn í tilefni af því að gefa Sjúkrahúsinu á Akureyri, FSA, eina milljón króna til tækjakaupa í samráði við stjórnendur stofnunarinnar. Þá samþykkti aðalfundurinn samstarfssamning milli FMA og Félags vélstjóra og málmtæknimanna, samningur þessi mun vera einsdæmi á vettvangi stéttarfélaga innan ASÍ. Í stjórn FMA voru kosnir: Hákon Hákonarson formaður, Jóhann R. Sigurðsson varaformaður og Finnbogi Jónsson ritari, meðstjórnendur eru Arnþór Örlygsson, Brynjólfur Jónsson og Jóhann Valberg Jónsson. Félagssvæði FMA er Akureyri, Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit og aðrir hreppar Eyjafjarðarsýslu, einnig Svalbarðsstrandarhreppur og Grýtubakkahreppur.