Fara alltaf yfir um, um jólin

"Þessi tími snýst fyrst og fremst um að vera til og hafa gaman af þessu en vera ekki í stresskasti…“

Þeir Arnar Símonarson, starfsmaður dvalarheimilinu Dalbæ á Dalvík og sambýlismaður hans Jón Arnar Sverrisson, deildarstjóri Blómavals á Akureyri eru svo sannarlega í essinu sínu í kringum jólin en þeir skreyta hátt og lágt, prjóna jólapeysur, senda hátt á annað hundrað jólakorta og steikja gríðarlegt magn af laufabrauði fyrir hver jól.

,,Já, við höfum báðir alltaf verið jólabörn. Þegar við vorum litlir var skreytt seint og lítið, liggur við bara á Þorláksmessu, en núna leyfum við okkur að byrja að skreyta upp úr miðjum nóvember. Það er drungi í skammedeginu og sjálfsagt að lýsa upp heimilið og undirbúa jólin með góðum fyrirvara,” segir Arnar og Jón kinkar kolli til samþykkis.

Skreytingar þeirra Arnars og Jóns hafa vakið töluverða athygli þeirra sem eiga leið hjá. ,,Við byrjum á að skreyta garðinn, þá erum við með seríur í grenitrjánum og á fleiri stöðum. Því næst tökum við niður svo lítið af hversdags skrautinu okkar tökum upp úr u.þ.b. 30 kössum af jólaskrauti,” segir Arnar en Jón bætir við að það sé ákveðin ástæða fyrir því að þeir byrji svo snemma að skreyta: ,,Það tæki því ekki að setja þetta allt upp á Þorláksmessu til að taka það svo niður á þrettándanum. Eftir skreytingarnar byrjum við í bakstri og jólakortum og jólapökkunum og göngum frá þeim. Svo erum við bara í því að hitta fólkið okkar og eiga notalegar stundir á aðventunni. Þessi tími snýst fyrst og fremst um að vera til og hafa gaman af þessu en vera ekki í stresskasti. Hjá okkur er þetta tími notalegheitanna, hitta fólkið og vera með fólki.”

 

Hátt í 200 jólakort og pakkaflóð

,,Við erum alveg rosalega pakkaglaðir og finnst gaman að gleðja í kringum jólin en við verslum gjafirnar allt árið. Þetta eru svona 80 pakkar hugsa ég, allir klárir niðri í kjallara” segir Arnar. ,,Við eigum báðir mjög stórar fjölskyldur og viljum ekki gleyma neinum og við eigum náttúrlega engin börn en það er fullt af börnum í kringum okkur og um að gera að gleðja þau,” bætir Jón við. Þeir láta líka gott sér leiða og gefa í safnanir fyrir þá sem engar gjafir fá.

 

,,Kortin eru líklega um 180. Einu sinni föndruðum við öll kort, ég veit ekki hvaða tíma við höfum haft þá!” Segir Jón og skelli hlær. ,,Þegar við vorum að skrifa á öll kortin þá vorum við handlama svona þrjú kvöld en nú nýtum við okkur tæknina og látum græja þetta á ljósmyndastofu,” bætir Arnar við.

 

Jólapeysur og smákökur, bæði fallegar og ljótar

Það er nú orðinn hluti af aðventunni hjá þeim Arnari og Jóni að klæðast nýprjónuðum jólapeysum og húfum í stíl. ,,Ég hef svakalega gaman af því að prjóna og finnst þetta skemmtileg hefð. Það er svo nýtt hjá okkur að fara í ljótar jólapeysur líka, ég prjóna þær reyndar ekki,” segir Arnar og hlær.

 

Jón sér um smákökubaksturinn en segir farir sínar af sörubakstri ekki sléttar. ,,Ég nefndi þær bara upp á nýtt eftir þessa tilraun. Ég kallaði þær herfur, þær voru svo hræðilega ljótar. En þær voru samt jafn bragðgóðar og þær voru ljótar,” segir Jón léttur í bragði. ,,Við bökum yfirleitt um sex sortir fyrir jólin.” Þar að auki bruggar hann jólasnaps fyrir hver jól: ,,Ég lærði þetta svo sem hvergi, maður setur bara sama magn af rifsberjum og sykri og svo vodka og hristir. Þá kemur fallegur og jólalegur litur á drykkinn.”

 

Loppumarkaður og laufabrauð

Arnar og Jón bjuggu í Horsens í Danmörku og koma með allskyns siði og venjur þaðan. ,,Undanfarin ár höfum við haft loppumarkað, eða flóamarkað, í bílskúrnum hjá okkur en við kynntumst þeirri hefð úti. Við höfum haft opið um helgar í vetur en á sumrin er þetta stærri garðsölumarkaður. Það er alveg sérstakt að hafa bílskúrinn opinn, fullan af jólalykt, og taka á móti fólki á aðventunni. Við gerum það aftur í ár.” Loppumarkaðurinn er á Hólavegi 5 á Dalvík fyrir þá sem vilja komast í jólaskap með hraði.

 

Eins og allt hjá þeim Arnari og Jóni er laufabrauðið tekið föstum tökum: ,,mamma kemur til okkar með uppskrift frá ömmu og langaömmu og í henni er sko nóg af kúmeni,” segir Arnar. ,,Þetta eru engar 20 kökur neitt, þetta eru líklega 180-200 kökur og allir hjálpast að. Það er skemmtilegur hluti af þessu,” bætir Jón við.

 

Misheppnaðasta jólagjöfin

,,Það var ein jólin sem gjöfin mín til Jóns misheppnaðist algjörlega,” segir Arnar. ,,Þá keypti ég vespur, eina handa mér og eina handa honum. Ég lét fjölskylduna hans vita sem keypti bitabox og hjálm og ég var að fara að henda slaufunni á tækið þegar Jón komst að þessu. Hann sagðist aldrei myndi stíga fæti á þetta tæki og ekki vilja sjá þetta. Þannig að það mislukkaðist algjörlega og hann fékk ekkert frá mér þau jól. Skemmtilegsta jólagjöfin var klárlega þegar við gáfum hvor öðrum utanlandsferð til Tenerife og við fórum svo eftir jól. Við mælum algjörlega með svoleiðis gjöfum.”

 

Hvernig forðast maður jólastress?

Þegar menn undirbúa jólin svona mikið en með stóískri ró er mikilvægt að reyna að komast að leyndarmálinu bak við stressleysið, hver er galdurinn?

,,Okkur finnst mjög mikilvægt að njóta aðventunnar og forðast allt óþarfa stress. Þessi tími er svo dásamlegur og með því að skipuleggja sig og byrja snemma verður hann afslappaður eins og hann á að vera” segir Arnar. En hvað með þá sem byrjuðu ekki snemma, hvað geta þeri gert? ,, Það er mikilvægt að muna að jólin koma, líka þó það sé ekki búið að skúra undan frystikistunni,” segir Jón og brosir.

 

-VDÓ

 

Nýjast