Fann sig í sálfræði og flýgur nú út í frekara nám

Emma Elísa Evudóttir       Mynd  UNAK
Emma Elísa Evudóttir Mynd UNAK

Þegar Emma var ung ætlaði hún að verða læknir eins og langafi. Í menntaskóla áttaði hún sig á því að líffræði væri alls ekki fag sem hún hafði gaman af og þá læknisfræðin ekki það sem fyrir henni lægi. Emma hafði hins vegar mjög gaman af sálfræðinni og eftir einn tímann kom kennarinn upp að Emmu, tjáði henni hversu efnileg hún væri á því sviði og fékk hana til að íhuga frekara nám í fræðunum.  

Í stuttu máli er þetta ástæða þess að Emma Elísa Evudóttir ákvað að skoða áframhaldandi nám í sálfræði og hefur sú leið svo sannarlega reynst henni vel. Hún brautskráðist síðastliðið vor úr fyrsta árgangi meistaranema í sálfræði við Háskólann á Akureyri. Í kjölfar þess hlaut hún skólavist í tveim bandarískum háskólum til að stunda doktorsnám, sem endaði með að hún valdi að fara í University of South Florida (USF). Til að velja á milli háskólanna fór hún í heimsókn á báða staði og í kjölfarið sá hún að í USF var skólinn sem hún vildi fara í. Það sem heillaði hana mest var samfélagið og fólkið við deildina ásamt rannsóknartækifærum sem henta henni.  

Þar með er ekki öll sagan sögð því á hverju ári hljóta fjórir nýnemar samkeppnisstyrk við skólann sem byggir á mati deilda skólans sem allar senda inn tillögur sig sem valið er úr. Sálfræðideildin mat Emmu sem nýnema í doktorsnámi sem myndi sýna fram á framúrskarandi námsárangur sem endar með að hún var ein af fjórum sem hlaut styrk ásamt niðurfelldum skólagjöldum. Emma er ekki búin að ákveða hvert doktorsverkefnið verður og er stefna skólans að nemar taki áfangana fyrst til að kynnast og prófi að vinna með mismunandi prófessorum áður en verkefni eru ákveðin. Hingað til hafa hennar verkefni legið á sviði próffræði og bæði í BA og mastersverkefni vann hún með HEXACO persónuleikaprófið. HEXACO var sett fram árið 2004 og er notað til dæmis við ráðningar.  Hún sá möguleika hjá USF til að rannsaka enn frekar próffræðina.  

 En hver er Emma?  

Emma fæddist í Hrísey, flutti sex mánaða til Akureyrar og bjó þar til þriggja ára aldurs þegar foreldrar hennar fluttu þaðan.   

„Ég hef alltaf verið á svolitlu flakki. Við bjuggum á Suðureyri, Reykjavík og fleiri stöðum en Norðurlandið hefur alltaf verið heim og heim kom ég aftur árið 2018 til að fara í nám við Háskólann á Akureyri. Skólann valdi ég af því mér fannst námskeiðin hljóma skemmtilega og það var of dýrt fyrir mig að fara í HR. Þá heillaði mikið að geta tekið áfangana heima og á eigin hraða en á þessum tíma var ég mjög þunglynd og átti í vandræðum með að halda sólarhringnum stöðugum“ segir Emma heiðarlega, aðspurð af hverju hún valdi að nema við skólann.  

„Þá langaði mig að flytja frá Reykjavík, í viðráðanlega leigu, breyta um umhverfi og það að vera stúdent við HA býður upp á það“ bætir hún við.   

Emma hefur alltaf verið lestrarhestur og mikill bókasafnari. „Afþreyingarlesturinn vék að miklu leyti vegna námsins en ég er að vinna að því að koma mér aftur í hann því ég sæki mikla skemmtun í lestur. Þá hef ég gaman af tölvuleikjum en þeir stressa mig upp svo ég fæ manninn minn til að spila þá sem ég hef áhuga á og ég fylgist með,“ segir Emma og bætir við varðandi áhugamálin: „Við eigum líka tíkina Aryu sem við fórum með í göngutúra en þar sem hún er talsverð kuldaskræfa verða vetrargönguferðirnar oft frekar stuttar.“ 

„Í dag vinn ég með þroskahömluðum á íbúðakjarna hjá Akureyrarbæ meðfram því sem ég er stundakennari hjá HA. Starfið er mjög gefandi og þó svo ég eigi eftir að sakna íbúanna þegar ég fer út þá finn ég að ég er tilbúin fyrir áskorunina. Að skilja við öryggið og þægindin hér heima er alveg smá kvíðavaldandi en ég er jafn spennt enda finn ég svo mikla trú frá starfsfólkinu á deildinni við USF og finn að þau munu standa 110 prósent við bakið á mér,“ segir Emma að lokum.  

Við óskum Emmu innilega til hamingju með bjarta framtíð, styrkinn og skólavistina. 

 Minnum á að opið er fyrir umsóknir í téð meistaranám svo og aðrar námsleiðir til og með 5. júní næstkomandi. Allar upplýsingar er að finna á unak.is.

  


Athugasemdir

Nýjast