Andri segir að slík virkjun gæti framleitt um 2 MW. Hann segir að ekki yrði um að ræða miðlunarlón að neinu marki, þar sem óverulegt flatlendi er á móts við sorphaugana en að byggja þyrfti lága stíflu. Stöðvarhúsið yrði svo byggt við afhafnasvæði steypustöðvar BM Vallár, norðan við ána. Leiðin frá stíflu að stöðvarhúsi yrði um 2,8 km og fallhæðin um 130 metrar. Andri segir að heildarkostnaður við byggingu slíkrar virkjunar sé áætlaður um 450 milljónir. "Um þessar mundir er það ekki alveg nógu hagstætt að ráðast í svona framkvæmd m.a vegna stöðu krónunnar, þar sem vélbúnað og fallrör þarf að kaupa erlendis frá. Arðsemismódelið lítur því ekki alveg nógu vel út þessa stundina en hugsanlega verða aðstæður orðnar betri eftir 1-2 ár, krónan þá styrkst og aðgangur að lánsfjármagni betri."
Andri segir að þessar hugmyndir séu settar fram í því samhengi að Fallorka sé aðeins að framleiða um 17% af raforkunotkun Akureyringa, að Becromal frátöldu, en afgangurinn er aðallega keyptur af Landsvirkjun. "Ef það fer þannig, eins og margir vilja spá, að rafmagnsverð muni hækka verulega á næstu árum, þá eru Akureyringar berskjaldaðir fyrir því. Framleiðsla og sala á rafmagni er á samkeppnismarkaði og það ber engum skylda til að selja Akureyringum frekar en öðrum rafmagn," segir Andri.
Fallorka rekur vatnsaflsvirkjanir við Djúpadalsá í Eyjafjarðarsveit. Þar er virkjað í tveimur þrepum og er fallhæðin í neðri virkjuninni um 56 metrar og 39 metrar í efri virkjuninni. Andri segir að vatnsmagnið sé um það bil tvöfalt meira í Djúpadalsá en í Glerá en saman framleiða Djúpadalsvirkjanir um 2,7 MW.
Norðurorka endurbyggði virkjun neðar við Glerá, fyrir neðan stíflu og framleiðir hún í dag um 290 kW. Andri segir að þegar gamla virkjunin var reist við Glerá á sínum tíma hafi menn velt fyrir sér stærri virkjun í ánni, sem tæki vatn úr efri hlutanum og myndi leiða það niður Þingvallastrætið og virkja þá mun meiri fallhæð niður af brekkunni. Þannig að hugmyndir um frekari virkjun Glerár séu ekki nýjar af nálinni.
Aðspurður um frekari virkjanahugmyndir segir Andri að gerð hafi verið athugun á virkjun í Hvassafellsdal, innst í Djúpadal. Þar væri hugsanlegt að reisa 3,5 MW virkjun. "Sú virkjun myndi jafnframt verða með umfangsmikla miðlun, sem myndi hjálpa neðri virkjunum í Djúpadalsá líka." Þá hefur Fallorka gert samning við bændur við Skjálfandafljót um að kanna möguleika á að byggja 8 MW virkjun í Skjálfandafljóti. Sú virkjun yrði á móts við jarðirnar Kálfborgará og Eyjadalsá, um 10 km sunnan við Fosshól. Þar yrði rennslisvirkjun án vatnsmiðlunar.