Við Héðinsbraut á Húsavík stendur fallegt og reisulegt hús. Aðdáendur Eurovision-kvikmyndar Will Ferrell, Eurovision Song Contest: The Story of Fire Sage, ættu að kannast við húsið en í kvikmyndinni er það heimili Lars sjálfs sem Will Ferrel leikur, en greint er frá þessu á mbl.is.
Húsið er byggt árið 1903 og í því eru tvær íbúðir en íbúðin sem umræðir er á efri hæð hússins. Það er hannað í einstaklega fallegum stíl líkt og mörg hús frá þessum tíma. Franskir hvítmálaðir gluggar eru í húsinu sem setja svip sinn á það.
Þrjú svefnherbergi eru í íbúðinni, tvö í risinu og eitt á miðhæðinni þar sem einnig er að finna eldhús, baðherbergi og stofu.
Húsið stendur við hornið á Héðinsbraut og vegsins niður að höfninni og er með fallegu útsýni niður að hafnarsvæðinu sem einnig bregður fyrir í kvikmyndinni.
Að því er fram kemur í Sögu Húsavíkur byggðu bræðurnir Aðalsteinn og Páll Kristjánsson húsið. Þeir bræður voru ættaðir úr Mývatnssveit og voru giftir systrunum Helgu og Þóru Guðnadætrum. Um árabil ráku Aðalsteinn og Páll verslun í austurhluta hússins. Húsið var lengi kallað Aðalsteinshús og svo seinna Pálshús, segir í frétt mbl.is.