Erum tilbúnir í samvinnu um nýtingu á gasinu

Mælingar á gasmagni og samsetningu gassins á sorphaugnum á Glerárdal á Akureyri, sem fram fóru meðfram rannsóknarborunum á sorphaugnum á vegum Norðurorku hf. og lauk í apríl sl., liggja nú fyrir. Helstu niðurstöður eru þær að metanmyndun nemi nú allt að 3,5 milljónum Nm3  á ári. Að sögn Franz Árnasonar forstjóra Norðurorku eru niðurstöðurnar í góðu samræmi við það metanmyndunarlíkan sem sett var fram fyrir nokkrum misserum.  

„Þetta kemur ekkert á óvart. Við vorum fyrst og fremst að þessu til að fá það staðfest að gasið væri til staðar. Hvort við notum það er svo annað mál en við erum allavega tilbúnir ræða samvinnu við aðra um að vinna þetta," segir Franz. Uppi hafa m.a. verið hugmyndir um að reisa koltrefjaverksmiðju í nágrenni Glerárdalshaugs til þess að nýta að nýta metangasið. Ef koltrefjaverksmiðja rís á svæðinu þarf hún um 1,5 milljónir Nm3 af metangasi á ári en um 100 „venjulegir" fólksbílar rúma 100.000 Nm3 á ári. Franz segir ákvörðun um framhaldið ekki liggja fyrir en Norðurorka hf. mun þó ekki ein og sér hefja metanframleiðslu að sinni. „Ég tel að ef það verði einhver glæta að þetta verði að veruleika að þá skýrist það á haustdögum. Það rennur þarna metan og við erum bara að tapa á því að bíða," segir Franz.

Metanið sem eldsneyti á bíla?

Franz segir nokkra aðila hafa þegar sýnt áhuga á samstarfi um vinnslu og hreinsun hauggassins til að selja það sem eldsneyti á bíla. Til að það sé hægt segir Franz að leggja þurfi fram umtalsverða fjármuni sem munu litlum sem engum arði skila fyrst um sinn vegna takmarkaðrar eftirspurnar. „Það kann að virka svolítið fráhrindandi en eftirspurnin kann hinsvegar að aukast hratt verði verð á metangasi hagstætt miðað við annað eldsneyti," segir hann. Af áhugasömum samstarfsaðilum nefnir Franz fyrirtækið Metan úr héraði ehf. á Akureyri, sem hefur stefnt að því að framleiða metan úr kúamykju. „Við í Norðurorku erum að skoða þessi mál og þegar við höfum rætt við alla aðila að þá ákveðum við hvort við ætlum að halda áfram í þessu í samstarfi við aðra eða selja öðrum rannsóknina," segir Franz Árnason.  

Nýjast