"Runólfur telur að eingöngu útreikningar á slysatíðni, umferðarþunga og arðsemi framkvæmda eigi að liggja til grundvallar ákvörðunum þegar verja á takmörkuðu fé til vegaframkvæmda. Stjórn Eyþings er sammála að þeir útreikningar verða að liggja til grundvallar, en áréttar jafnframt að fleiri og ekki síður mikilvægar breytur þurfa einnig að liggja til grundvallar slíkum ákvörðunum.
Við erum fámenn þjóð í stóru landi. Hér eru byggðir dreifðar. Það er ljóst að engar samgöngubætur geta orðið á landsbyggðinni eigi íbúafjöldi að liggja nær eingöngu til grundvallar slíkum ákvörðunum. Verulegur hluti þjóðarframleiðslunnar kemur frá byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna finnst okkur, sem búum utan höfuðborgarsvæðisins mikilvægt að njóta afrakstrar erfiðisins, t.d. í formi viðunandi samgangna. Góðar og öruggar samgönguæðar stuðla m.a. að þjóðhagslegum sparnaði og auknum gjaldeyristekjum þjóðarbúsins í heild.
Fyrir forsvarsmann heildarsamtaka allra bifreiðaeigenda á landinu er mikilvægt að gleyma ekki að af hverjum tveimur krónum, sem íbúar í Norðausturkjördæmi greiða í skatta, lætur nærri að aðeins ein króna skili sér til baka í formi framlaga til nauðsynlegrar grunnþjónustu, vegaframkvæmda og annarra sameiginlegra þarfa. Þeirri krónu, sem eftir verður á höfuðborgarsvæðinu, er varið til þjónustu og uppbyggingar innviða á því svæði. Gleymum ekki að landsbyggðin aflar þjóðarbúinu mun meiri tekna en hún fær notið til sameiginlegra verkefna í heimabyggð.
En fleira þarf að hafa í huga þegar ákveðið er að ráðast í framkvæmdir á borð við Vaðlaheiðargöng eða aðrar samgöngubætur. Hverju mannsbarni á Norðurlandi er kunnugt um hvílíkur vegatálmi Víkurskarðið getur orðið. Um skarðið fara á annað þúsund bíla á sólarhring. Víkurskarð er lífæð milli landshluta. Þar hafa mannskaðar og slys orðið enda vegurinn stórhættulegur í viðsjárverðum veðrum. Víkurskarðið er þó eina leið Þingeyinga til að sækja þjónustu, svo sem bráða- og sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði. Samdráttur og niðurskurður á framlögum til opinberrar þjónustu, ekki síst heilbrigðisþjónustu, knýr beinlínis á um bættar samgöngur til að tryggja megi öryggi íbúa hinna dreifða byggða á Norðausturlandi.
Þau sjónarmið, sem framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda lýsti, vekja þá spurningu hvort FÍB hafi í heiðri hagsmuni allra bifreiðaeigenda á landinu, eða eingöngu hagsmuni þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Að mati stjórnar Eyþings er forkastanlegt að hagsmunasamtök allra bíleigenda landsins skuli leggja slíkt mat á arðsemi Vaðlaheiðarganga sem framkvæmdastjóri FÍB hefur lýst. Félagsmenn á landsbyggðinni hljóta að velta fyrir sér tilgangi félagsins," segir í yfirlýsingu stjórnar Eyþings.