Enn ríkir óvissa með framtíð Starfsendurhæfingar Norðurlands

Á fundi almannaheillanefndar Akureyrar sl. föstudag var m.a. rætt um VIRK starfsendurhæfingarsjóð og Starfsendurhæfingu Norðurlands. Fram kom að fjármagn til rekstrar Starfsendurhæfingar er að klárast og fyrir liggur að starfsfólki verði sagt upp. Málið er komið inn á borð ríkisstjórnarinnar og mun ákvörðun um framhald verða tekin á morgun miðvikudag.  

Fundarfólk lýsti áhyggjum af því að þeim sem verst væru staddir og hefðu notið þjónustu Starfsendurhæfingar Norðurlands stæði ekki til boða sú endurhæfing sem þeir þyrftu á að halda félli sú þjónusta niður. Einnig kom fram að eftir lokun dagdeildar geðdeildar FSA hefði sá hópur komist í þjónustu hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands. Þá var sérstaklega rætt um stöðu ungs fólks sem er án atvinnu og glímir jafnframt við geðræn vandamál og/eða vímuefnaneyslu. Sárlega virðist vanta meðferðarúrræði á Norðurlandi.

Anna Guðný Guðmundsdóttir verkefnastjóri hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði kynnti sjóðinn og hlutverk hans á fundi almannaheilldanefndar. Fram kom að hlutverk VIRK er að draga markvisst úr líkum á því að starfsmenn hverfi af vinnumarkaði vegna varanlegrar örorku með aukinni virkni, eflingu starfsendurhæfingar og öðrum úrræðum. 45% af því fjármagni sem farið hefur í kaup á úrræðum hefur verið keypt af Starfsendurhæfingu Norðurlands.

Almannaheillanefnd væntir alls hins besta af VIRK sem forvarnaverkefni og hvetur til góðrar samvinnu VIRK og Starfsendurhæfingar Norðurlands. Almannaheillanefnd telur mikilvægt að stutt verði við starf Starfsendurhæfingar Norðurlands og ekki falli niður endurhæfingartilboð til þeirra sem illa eru staddir. Einnig telur nefndin úrræði vanta fyrir geðfatlaða einstaklinga sem og meðferðarúrræði fyrir ungt fólk í vímuefnavanda.

Nýjast