Enn langt í land hvað varðar raunverulegt jafnrétti

Arnfríður Aðalsteinsdóttir, verkefnisstjóri á Jafnréttisstofu sagði á fundi um jafnréttismál á Akureyri, að þótt lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hafi verið í gildi í rúm 30 ár, sé enn í langt í land hvað varðar raunverulegt jafnrétti. "Jafnrétti kynjanna þýðir að kynin séu jafn sjáanleg í samfélaginu, jafn valdamikil og taki jafnan þátt í opinberu lífi og einkalífi. Við vitum öll að veruleikinn er ekkert svona."  

Arnfríður vitnaði í könnun þar sem kemur í ljós að kynbundinn launamunur er enn sláandi og að konur óski sér ekki nema 80% af þeim launum sem karlar óska sér. "Er nema von að maður spyrji, hvers vegna konur meta sig minna en karlar. Það er greinilega einhver innri skekkja í gangi sem gegnsýrir samfélagið, viðhorf okkar og menningu okkar. Ef raunverulegt jafnrétti á að nást, þurfum við á hugarfarsbreytingu að halda og við náum henni ekki nema með því að fræða börnin okkar um jafnréttismál. Þar gegnir skólinn mikilvægu hlutverki," sagði Arnfríður.

"Á undanförnum árum hefur miðað vel, alla vega þokkalega, í jafnréttismálum hjá Akureyrarbæ," sagði Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri á fundinum, sem Jafnréttisstofa og Akureyrarbær stóðu fyrir í tilefni af kvennafrídeginum 24. október. Máli sínu til stuðnings nefndi bæjarstjóri m.a. svokallaða jafnréttisvog, þar sem Akureyrarbær kemur best út íslenskra sveitarfélaga. Hermann Jón sagði að tekist hafi að jafna kynbundin launamun hjá Akureyrarbæ og að jafnræði væri meðal kjörinna bæjarfullrúa. "Verkefninu verður seint lokið og lítur m.a. að því að viðhalda þeim árangri sem þegar hefur náðst, auk þess sem ýmislegt annað liggur fyrir að gera og jafnréttisáætlun skilgreinir sem okkar helstu verkefni," sagði Hermann Jón.

Á fundinum fór bæjarstjóri m.a. yfir það hvernig mál hafa þróast hjá Akureyrarbæ. Hann nefndi að árið 1982 hafi verið stofnuð jafnréttisnefnd og árið 1989 var gefin út jafnréttisáætlun. Jafnréttisfulltrúi tók til starfa hjá Akureyrarbæ árið 1991 en það var í fyrsta skipti sem slíkur starfsmaður var ráðinn hjá sveitarfélagi. Það var svo árið 1992 sem Akureyrarbær fékk jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs, fyrst íslenskra sveitarfélaga.

Hermann Jón sagði að umræðan hefði lengi snúist um laun og launamun og það verkefni að eyða kynbundnum launamun. "Á þessum tíma komu upp deilur um laun æðstu stjórnenda bæjarins, þá komu m.a. upp málaferli og féllu dómar bænum í óhag. Þetta varð til þess að ráðist var í töluvert átak varðandi launmál og launastefnu bæjarins."

Varðandi bæjarfulltrúa síðustu þrjú kjörtímabil hefur skipting milli kynja verið nánast jöfn, að sögn Hermans Jóns og getur ekki verið jafnari, þar sem bæjarfulltrúarnir eru ellefu. "Þegar horft er á fastanefndir og nefndarstörf og það hvernig fólk velst þar til starfa, höfum við verið að fikra okkur í rétta átt á því sviði á seinni árum." Heldur fleiri karlar en konur eru í nefndum bæjarins en varðandi æðstu stjórnendur er skiptingin jöfn. Mikil meirihluti starfsmanna bæjarins eru konur en ýmsir vinnustaðir skiptast enn í kvennastörf og karlastörf.

Nýjast