Topp 5. listi vikunnar

Nú fer af stað nýr vikulegur liður hér á dagskráin.is. en það er topp 5. listinn. Þessi dagskrárliður fer þannig fram að ég ríð sjálfur á vaðið og kynni hér minn topp 5. lista  yfir kvikmyndir sem hafa gert mig hræddan. Ég heiti Egill og er nýráðinn blaðamaður hér á dagskránni.  Þá skora ég á næsta að birta sinn eigin lista. Sá sem skorar á ræður hvernig lista næsti á að birta. Um leið og ég birti hér með minn lista þá vil ég skora á Árna Þór Theodórsson, tæknimann hjá sjónvarpsstöðinni N4 að koma með topp 5. lista yfir uppáhalds heimildamyndir. Við bíðum spennt eftir hans framlagi á næsta fimmtudag.

 

5. In the mouth of madness. Leikstjóri: John Carpenter. (1995)

Ég sá þessa mynd í Borgarbíó á Akureyri fyrir hrikalega mörgum árum. Ég man í raun ekki mikið eftir söguþræðinum. En ég  man mjög vel hvað mér þótti Sam Neil frábær. Ég hef aldrei á ævinni, hvorki fyrr né síðar hrokkið jafn oft og mikið við. Mér er líka minnisstætt að þegar myndin var búin; þá tók ég eftir manni fyrir aftan mig sem mér fannst vera að minnsta kosti 130 ára gamall. Ég er enn að velta því fyrir mér hvernig hann lifði þessa mynd af.

 

4. Lost highway. Leikstjóri: David Lynch. (1997).

Bæði óhugnarleg og stórfurðuleg mynd eins og svo margt úr smiðju David Lynch. Myndin fjallar um jazzsaxafónleikara sem leikinn er af Bill Pullman. Hann er ranglega dæmdur fyrir morðið á eiginkonu sinni og er sendur í fangelsi. Málin flækjast þegar hann á óútskýranlegan hátt vaknar upp sem annar maður og fer að lifa lífi hans.

Það er talsvert af hrökkva við atriðum í þessari mynd, en hún þó kanski eftirminnilegust fyrir þær sakir að þarna komu Rammstein sterkir fram á sjónarsviðið, en lög þeirra; Heirate mich og Rammstein hljómuðu í myndinni.

 

3. The shining. Leikstjóri: Stanley Kubrick. (1980).

Hér er á ferðinni ein af mínum uppáhalds myndum, hún er einnig byggð á einni af mínum uppáhalds skáldsögum, samnefndri bók eftir Stephen  King. Myndin fjallar um Jack Torrance sem leikinn er meistaralega af Jack Nicholson. Torrance þessi flytur með konu sína og skyggnan son á stórt fjallahótel, þar sem þau hafa vetursetu á meðan hótelið er lokað. Torrance er sem sagt ráðinn sem umsjónarmaður hótelsins. Hann og fjölskyldan eru  því ein allan veturinn. Það sem þau vita ekki er að hótelið á sér myrka sögu hroðalegra atburða, og fljótlega verða þau vör við að ekki er allt með felldu.

Þetta er án efa ein óhugnalegasta mynd sem gerð hefur verið enda byggð á skáldsögu sem hræddi líftóruna úr mér á sínum tíma. Kubrick hafði líka einstakt lag á að skapa andrúmsloft sem bæði fyllir mann óhug samtímis sem það þvingar mann til að vilja sjá og vita meira. Þrátt fyrir að myndin sé algjörlega stórfengleg, þá er bókin samt aðeins betri, hugsið ykkur það.

 

2. Pet semetery (1989). Leikstjóri: Mary Lambert.

Önnur mynd sem gerð er eftir samnefndri sögu Stephen King. Ung hjón með lítinn son flytja inn í nýtt hús í smábæ í Maine. Þegar heimiliskötturinn drepst þá grefur heimilsfaðirinn hann í gömlum indíánagrafreit skammt frá heimili þeirra. Daginn eftir snýr kötturinn aftur, nema hvað þetta er ekki sami kötturinn… Skömmu síðar deyr litli sonurinn í hræðilegu slysi, bugaður af sorg þarf heimilisfaðirinn að taka ákvörðun.

Ég var mjög ungur þegar ég sá þessa mynd fyrst og var vægast sagt mjög hræddur. Myndin skartar mörgum mjög óhugnarlegum senum, sem ég reyndar veit ekki hvort standist tímans tönn, en minningin lifir. Og ekki spillir fyrir að sjálfur Stephen King leikur lítið hlutverk í myndinni. Hann er presturinn í myndskeiðinu hér að neðan.

 

1. Draugasaga, eða Draugurinn í sjónvarpshúsinu, eða rauðhærða afturgangan. (1985)

„Ungur næturvörður, í gamla sjónvarpshúsinu við Laugaveg, kynnist förðunardömu og saman ákveða þau að setja á svið draugagang til að hrekkja annan næturvörð. Rauðhærð afturganga lætur á sér kræla. En brátt kárnar gamanið og kraftar leysast úr læðingi sem þau ráða ekki við,“ segir á Kvikmyndavefnum.

Ég lét þessa klausu fylgja með vegna þess að ég var svo ungur þegar ég sá þessa mynd að ég man lítið eftir söguþræðinum. En ég man eftir stórri sleggju og Kristjáni Franklín Magnús í kjól með rauða hárkollu. Ég þarf ekki að muna meira. Ég fyllist enn skelfingu þegar Kristján Franklín birtist á skjánum, guð forði því að ég eigi nokkurn tíma eftir að hitta hann í eigin persónu. Rauðhærða afturgangan eins og ég kýs að kalla þessa mynd er eina kvikmyndin sem ég hef horft á grúfður á bak við sófa. Skelfingin sem þessi mynd olli mér verður aldrei toppuð.

Ég fann hvergi brot úr myndinni, en ég læt hér fylgja með youtube endurgerð af senu úr myndinni. EPE.

Nýjast