Eldvarnarátak LSS - Reykskynjarar, slökkvitæki, eld- varnarteppi mikilvæg á heimilum
Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, LSS hófst með heimsókn Slökkviliðs Akureyrar í Síðuskóla á Akureyri.
Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar, og Bjarni Ingimarsson, formaður LSS ræddu um mikilvægi eldvarna fyrir öryggi heimilanna við börn í 3. bekk. Sýnd var myndin um Loga og Glóð og baráttu þeirra við Brennu-Varg auk þess sem afhent var eintak af handbók Eldvarnarbandalagsins um eldvarnir heimilisins, endurskinsborði frá Neyðarlínunni og fleira.
Rýmingar- og björgunaræfing fór að lokum fram í Síðuskóla og notaði slökkviliðið sérstakan búnað til að herma eftir eldi. Í lokin fékk starfsfólk þjálfun í notkun slökkvibúnaðar.
Slökkviliðin heimsækja alla grunnskóla landsins og beina fræðslu um eldvarnir að nemendum í 3. bekk grunnskóla og fjölskyldum þeirra. Lögð er áhersla á að heimili séu búin eldvarnabúnaði á borð við reykskynjara, slökkvitæki og eldvarnateppi. Brýnt er fyrir börnunum að fara varlega með kertaljós og annan opinn eld og gæta þess að hlaða snjalltæki og rafhlaupahjól aðeins í öruggu umhverfi.
Athugasemdir