Það sem hins vegar vakti fljótlega grunsemdir lögreglu um mögulega íkveikju er sú staðreynd að eldurinn virðist hafa verið mestur í hillum næst þvottahúsglugganum og hann var opinn. Gunnar Jóhannsson, hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri segir á vef RÚV, að allir möguleikar séu skoðaðir, þar á meðal íkveikja. Rannsókn sé hins vegar ekki lokið og því ekki hægt að fullyrða neitt að svo stöddu. Lögreglan hefur nú óskað eftir að ná tali af ungum manni sem var á vettvangi þegar lögregla og slökkvilið komu að húsinu um klukkan hálf átta í gærmorgun. Gunnar tekur fram að maðurinn sé ekki grunaður um íkveikju, en mikilvægt sé að ná af honum tali. Samkvæmt lýsingu lögreglu er hann dökkhærður og grannur og mun hafa verið klæddur í gallabuxur og svarta peysu með rauðum merkingum. Þá óskar lögreglan eftir öllum upplýsingum um mögulegar mannaferðir í nágrenni Eiðsvallagötu fimm snemma í gærmorgun.